Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
29.6.2007 | 17:08
Veruleikafirrtur Wrestling-heimur
Ég las það á einhverjum íslenskum fréttamiðli í vikunni að bandarískur glímukappi (wrestling) hefði drepið fjölskyldu sína og síðan tekið eigið líf. Mér þótti það ósköp dapurlegur endi á lífi þessa fólks en skildi ekki hvaða erindi þetta ætti við okkur Íslendinga.
Þess vegna er kannski svolítið fyndið að ég skuli nú eyða í hann heilli færslu og það undir fyrirsögn um veruleikafirringu. Það hefur nefnilega komið fram í norskum fjölmiðlum í dag að upplýsingar um andlát konu hans og sonar hafi verið komin inn á alþýðuorðabókina Wikipedia að minnsta kosti þrettán klukkustundum áður en lögreglan fékk vitneskju um morðin. Ein fréttin segir tímaröðina hafa verið einhvern veginn svona:
- Föstudagskvöld: Eiginkonan kvalin og drepin.
- Laugardagur: Sonurinn líklega drepinn.
- Aðfararnótt sunnudags (ca. 04:00): Glímukappinn sendir undarleg SMS skilaboð til vina og nágranna.
- Aðfararnótt mánudags (kl. 00:01): Prófíl glímukappans á Wikipedia breytt til að birta upplýsingar um andlát eiginkonunnar og sonarins. Tölvan sem notuð var til breytingarinnar er talin vera staðsett í nálægð við aðsetur WWE, fyrirtækisins sem stendur fyrir wrestling glímukeppnunum.
- Glímukappinn tekur eigið líf einhvern tíma um nóttina.
- Mánudagur: lögreglan finnur líkin.
Það sem meira er, notandi, með sama tölvuauðkenni (IP address) og sá sem breytti prófílnum, segir að breytingin á prófílnum hafi verið byggð á sögusögnum um að glímukappinn hafi ekki keppt á laugardagskvöldið "vegna andláts eiginkonunnar" eins og það er orðað í frétt Guardian um efnið.
Það var sem sagt einhver þriðji aðili staðsettur í Stamford Conneticut, þar sem Wrestling Entertainment er með aðsetur, sem breytti upplýsingum um atburði sem voru að gerast í Atlanta á sama tíma - en sá enga ástæðu til þess að segja lögregluyfirvöldum frá því.
Talandi um veruleikafirringu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.7.2007 kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.6.2007 | 17:13
Útskýringar á ritgerð?
Þetta er nokkurn veginn nákvæmlega það sem ég er að skrifa um af miklum móð þessa dagana.
Samkvæmt heimildum Orðsins á götunni eru dæmi um það meðal stórra fasteignafélaga á höfuðborgarsvæðinu að þeir komi fyrir staðsetningarbúnaði á erlendum konum sem sjá um þrif á eignum þeirra.
Þetta mun vera í þeim tilgangi að fylgjast með því hvar þær eru á hverjum tíma og hvort þær séu ekki örugglega að vinna ölllum stundum. Það er spurning hvort um sé að ræða búnað svipaðan þeim sem bandarísk fangelsisyfirvöld nota til að fylgjast með því hvort fólk sem dæmt eru í stofufangelsi sé heima hjá sér og sjá má hér á myndinni til hliða?
Ég geri fastlega ráð fyrir að hér sé um nýtingu á RFID tækninni að ræða, þar sem einstaklingurinn ber á sér t.d. lítið aðgangskort sem notað er til þess að opna læstar hurðir. Ákveðnum fjölda lesara er síðan komið fyrir út um allt hús og þannig er hægt að fylgjast með öllum hreyfingum þess aðila sem kortið ber - í þrívídd.
Nauðsynlegt er náttúrulega að hafa aðgangskortið á sér, því annars kemstu ekki í gegnum læstar dyr. Þess vegna er engin ástæða til þess að festa þetta um ökla starfsmannanna eins og gefið er til kynna í færslunni sem ég vísa til.
Þetta er sama tækni og notuð er í vegabréfin okkar, nema á þeim örmerkjum eru geymdar miklu viðkvæmari upplýsingar en eitt seríalnúmer (sem er væntanlega það sem finna má á aðgangskortunum sem væntanlega eru í notkun hjá fasteignafélögunum :))
Ritgerðin mín snýst einmitt um að skoða lagaleg áhrif RFID tækninnar á persónuvernd og friðhelgi einkalífs.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.6.2007 | 15:36
Tilgangslaust án breytinga á leiðarkerfi
Hugmyndin er góð, því verður ekki neitað, en ég sé ekki að með 20-30 mínútna millibili í leiðarkerfi breyti verðmiðinn nokkru. Þjónustan verður einungis grundvölluð á góðu, öflugu og tíðu leiðarkerfi vagnanna. Allar tilraunir með gjaldfrjálsan strætó eru dæmdar til að mistakast án leiðarkerfisbreytinga.
En kannski er það einmitt ætlunin, að sýna fram á það með tilraunatímabili að aukning farþega sé ekki svo mikil með gjaldfrjálsum strætó. Ég vona að svo sé ekki.
Hér í Osló þarf ég sjaldnast að líta á tímaáætlun vagnanna, því þeir keyra flestir á 6-10 mínútna fresti frá morgni til kvölds alla virka daga. Ég fer bara út á stoppistöð þegar ég er tilbúin og næsti vagn er aldrei meira en í 10 mínútna fjarlægð. Það sama gildir þegar ég þarf að skipta um vagn til að komast á leiðarenda.
Settu upp skipulag þar sem allar ferðir skerast þannig að aldrei þurfi að bíða lengur en 10 mínútur á stoppistöð (helst minna í hríðarbyljunum) og sannaðu til, notendurnir eru fyllilega reiðubúnir til þess að greiða fyrir slíkt kerfi.
Frítt í strætó fyrir Kópavogsbúa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.4.2007 | 16:37
91% af tekjum ríkisins af tekjuskatti, koma frá fyrstu 150.000 kr. af mánaðarlaunum!
Getur það verið?
Gestur Guðjónsson, framsóknarmaður og forfallinn áhugamaður um samfélagið og allt mannlegt að eigin sögn, ritaði óhugnalega athugasemd við pistil Péturs Gunnarssonar í gær:
Sló á þetta um daginn. Gaf mér að fjöldi gjaldenda sé óbreyttur 227 þús, heildartekjur gjaldenda óbreyttar og útsvarið óbreytt. Þá kostar hækkunin í 100 þús kr 10,4 milljarða, en hækkunin í 150 þús kr 58,8 milljarða og eftir standa 6 milljarða tekjur ríkisins af tekjuskatti í stað 65 milljarða í dag.
Hér er Gestur að ræða umræður úr leiðtogakastljósi mánudagsins, þar sem kastað var fram hugmyndum um hækkun persónuafsláttar þannig að fyrstu 150 þúsund krónur launamannsins væru undanþegnar tekjuskatti.
Áttar maðurinn sig á því hvað hann er að segja? Hann er í raun að segja að fyrstu 150.000 krónur launamannsins, hvort sem hann hefur 151.000 eða 1.510.000 í laun á mánuði, standi undir 91% af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti, væntanlega á árinu 2006.
Hvernig ætli dreifing tekna þessara 227 þúsund gjaldenda sé? Hversu hátt hlutfall af þeim ætli sé með mánaðarlaun neðan 200.000 króna marksins? Ja, ég get að minnsta kosti ekki dregið aðra ályktun en svo að þar sem allar tekjur landsmanna umfram 150 þúsund krónurnar gefa ekki af sér nema ríflega 9% teknanna, eða 6 milljarða króna skv. upplýsingum Gests, þá sé stór hluti gjaldenda á neðri hluta kúrfunnar.
Er það réttlát skattdreifing?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.4.2007 kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.2.2007 | 19:32
Lögfræðingurinn í mér gapir meðan feministinn glottir
Ég er eiginlega alveg orðlaus.
Lögfræðingurinn í mér gapir.
Mannréttindafulltrúinn í mér er klofinn í herðar niður.
Jafnréttissinninn í mér er órólegur.
Feministinn í mér glottir.
Já það er bannað að framleiða klám á Íslandi.
En ef ég reiddist þegar fólki í gulum stuttermabolum var meinað að ganga frjáls um landið mitt, hvernig í ósköpunum get ég þá réttlætt það að meina frjálsu og fullorðnu fólki með öðruvísi kynhegðun en ég, að ganga um sama land?
Eins og margir hafa sagt á undan mér: Það reynir fyrst á gildi tjáningafrelsisákvæðis stjórnarskrár þegar kemur að því að taka afstöðu til óæskilegra skoðana.
Já klám er niðurlægjandi fyrir konur.
Ég veit líka að margar konur og mörg börn eru seld mansali til þess að fjármagna ákveðnar kenndir oft sjúkra einstaklinga.
Ég fordæmi iðnaðinn. Ég fordæmi að einhver skuli gera sér niðurlægingu í kynlífi að féþúfu. Auk þess sem ég skil ekki hvað það er við klám sem gerir það spennandi afþreyingu.
Ég vil samt ekki að fólki í gulum stuttermabolum sé úthýst af landinu.
Og þá get ég ekki gert kröfu um að fólki í rauðum stuttermabolum sé úthýst. Jafnvel þó líferni þeirra sé mér ekki að skapi.
Eða hvað?
Hætt við klámráðstefnu hér á landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
8.2.2007 | 19:33
Nei, maðurinn bar ekki refsiábyrgð, þó hann væri talinn höfundur
Þetta snýst allt um blessaða ábyrgðarreglu prentlaga en ég skil vel að snúningurinn í málinu sé nægilega flókinn til þess að rugla blaðamenn.
Maðurinn, sem viðurkenndi að hafa pantað og samið auglýsingarnar, var ekki talinn bera refsiábyrgð vegna þess að ábyrgðarregla prentlaga (15. gr. laga 57/1956) tilgreinir skýrt að til þess að höfundur beri refsiábyrgð á efni þurfi hann að vera sérstaklega tilgreindur og með heimilisfesti hér á landi við málshöfðun.
Þar sem eina tilgreiningin í auglýsingunum var vörumerkið, sem er skrásett í eigu dansks fyrirtækis, með heimilisfesti í Danmörku, var ekki hægt að dæma höfundinn, þó hann sé þekktur.
Þetta er það sama og gerðist með -sme um árið, þrátt fyrir að allir viti hver hann er undir þessu auðkenni (-sme) þá var Sigurjón M. Egilsson ekki talinn bera ábyrgð á birtu efni.
Fullur pistill um málið, ásamt hugleiðingum um framhaldið finnst á vefsíðu minni, elfur.is.
Sýknaður af ákæru fyrir áfengisauglýsingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2007 | 14:31
Svei mér þá, ég vildi að það væru kosningar á hverju ári
Ekki vegna þess að mér finnist svona gaman að kjósa, heldur fyrst og fremst vegna þess að loksins að vori kosningaveturs fást í gegn margvísleg sjálfsögð réttindi sem ekki hefur verið unnt að gera á öðrum tímum.
Lausnin: kjósum á hverju ári, því þá fáum við nauðsynlegar breytingar á hverju vorþingi.
Fyrri fæðingarorlofsgreiðslur ekki lengur lagðar til grundvallar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)