Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ja hérna og náðasamlegast hér

Ég get nú ekki orða bundist lengur.

Sit við skriftir og á því ekkert að vera að ibbast upp á blogg, en ég stalst krúsina í kvöld og skoðaði færslur ýmissa aðila undanfarna daga, ásamt með athugasemdum við þær. Ég kemst ekki yfir það hvað við búum í skelfilega heiftúðugu þjóðfélagi hérna á Íslandi. Flestar eiga umræðurnar það sammerkt að í stað þess að ræða málefnalega um umræðuefnið sem verður uppspretta fyrstu bloggfærslunnar (sem nota bene eru alls ekki allar málefnalegar) taka við gríðarleg níð, málefnið er nítt, persónan er nídd og jafnvel heilu flokkarnir eða fylkingarnar fordæmdar fyrir að vera "vondar" - allt til að þurfa ekki að mætast með rökum. Tökum nokkur dæmi:

Ég las færslur um lokun á vefsíðum sem sumir vilja meina að brjóti gegn íslenskum lögum. Hraunað var yfir alla aðila þess máls, ýmist þannig að netverjarnir hraunuðu yfir rétthafana nú eða rétthafarnir (og stuðningsmenn þeirra) yfir netverjana - þar hallar ekkert á og menn veigra ekki fyrir sér að nota orðtök eins og "bólugrafnir unglingar með bremsuför" (eða hvernig sem maðurinn orðaði það nákvæmlega). Hérna voru sem sagt gríðarlega vondir menn að taka á gríðarlegum þjófum sem líkja mátti við morðingja, hvorki meira né minna.  Og að sama skapi, frá hinu sjónarhorninu, gríðarlega saklausir einstaklingar að njóta efnis án endurgjalds sem þeir hefðu hvort sem er aldrei keypt, enda milliliðirnir (dreifingaraðilarnir og rétthafasamtökin) gríðarlega gráðugir og hirða allan ágóðann af saklausum frumhöfundunum. Það dugði ekkert minna en stórskotahríð og ég verð að viðurkenna að fáar voru þær færslurnar eða athugasemdirnar sem ræddu málefnalega um lausn (en þær voru þó þarna inn á milli, ein eða þrjár).

Ég las líka færslur um slagsíðu í umræðu og gestavali hjá Agli Helgasyni. Þar tókust á (held ég) feministar og and-femínistar, og fólk og jafnaðarmenn. Fulltrúar feðraveldis og andstæðingar þess. Uppspretta alls hins illa og englar - svona næstum því. Þar var engu minni stórskotahríðin, einstaka persónugerfðir einstaklingar hreinlega taldir bera ábyrgð á því að banna ætti feminisma yfirhöfuð (eða var það ekki þannig?). Enda engin ástæða til þess að ræða jafnrétti á neinum þeim nótum sem þau hafa beitt. Þessum skæruliðum átti að eyða líktog hinum sem berjast á grundvelli trúarbragða - eða því sem næst. Enn hallaði ekki mikið á, í nafni feminisma og kröfu um jafnan rétt var orðunum beitt og í nafni nauðfengins and-feminisma (vegna ofsa og öfga feministanna) var enn fleiri orðum beitt. Mín eina hugsun við þennan lestur var "er einhver hissa á að konur hiki við að tjá sig?" Þær eru nefnilega vafalaust margar sem skortir sjálfstraustið og/eða hugrekkið til þess að standa í viðlíka orrarhríð og þær sem barist hafa fyrir bleiku gera.

Sem leiðir hugann að færslunum um ungbarnafötin. Með henni tókst (karl)mönnum hreinlega að finna skotspón á heilan stjórnmálaflokk - eða að minnsta kosti fyrirgerði konan sem hóf umræðuna sér allan rétt á tjáningarfrelsi með henni.

Og þær voru fleiri ... og þær fjölluðu um fleira og fjölbreyttara svið mannlífsins. Ég gæti nefnt OR/REI en það væri líklegast að æra óstöðugan enda flest málefnalegt horfið úr þeirri umræðu - svona á flestum vígstöðvum. Svo ég tali nú ekki um fjaðrafokið í kringum tímasetningar á bloggfærslum eins af ráðherrunum okkar. Maðurinn blammerar það er vitað, maðurinn sefur greinilega ekki mikið (eða fer a.m.k. seint að sofa) það er líka vitað. Hvers vegna í ósköpunum þarf að væna hann um alkóhólisma eða annað óráð fyrir það eitt að nýta sér stjórnarskrárbundinn rétt sinn á öðrum tíma en sæmir rétttrúuðum? Ekki það, það er verst fyrir hann ef ástæðan er eitthvað í líkingu við gróuna. Svo ekki sé minnst á blessaðan útlendinginn sem vogaði sér að gerast íslenskur og komast á þing, mann sem hafði í ofanálag vogað sér að beita gagnrýnni hugsun með (að því er virðist) andíslenskum hætti (eða var það andbarnískur, væri það orð?). Fyndnust var nú samt litla og þrönga orrahríðin sem geisaði milli Stefáns og Jens í hálfan annan sólarhring, held ég, þar sem varla var raunverulega málefnalegt strá að finna - útúrsnúningar og teknókratískar rökræður par exelans.

En af hverju er ég að minnast á þetta allt saman? Fyrst og fremst stuðaði þetta mig. Við búum í lýðræðisríki og við heimtum tjáningarfrelsi, skoðanafrelsi, félagafrelsi, atvinnufrelsi og allt hitt frelsið sem við höfum fengið skráð í mannréttindakafla stjórnarskrár okkar. Við ætlumst til þess að eftir málflutningi okkar sé tekið, við viljum reyna að hafa með honum áhrif og vonumst til þess að þau verði góð. En það fyrsta sem okkur virðist vera tamt, þegar maðurinn á móti lætur í ljós skoðun sem okkur líkar ekki, eða fer gegn okkar stjórnmálaskoðun, lífstrú eða hverju öðru. Það fyrsta sem við gerum er að hrauna - dæla fúkyrðum og ónotum og öðrum ómerkilegheitum í manneskjuna, í málefnið, í hreyfinguna, nú eða í allt þrennt á sama tíma. Við alhæfum og við gerum öðrum upp skoðanir. Við níðum og lemjum og tröðkum og spörkum. ... Eini munurinn á okkur og "almennum ofbeldismönnum" er að við beitum orðum, þeir beita hnefum.

Ætli einhverjum hafi dottið í hug að orð hafa líka áhrif?

Ég held það nefnilega. Mér verður hugsað til þöggunarþjóðfélags fortíðarinnar og minnist þess að aðrir hafa á undan mér nefnt þöggunarþjóðfélag nútíðarinnar. Mér verður hugsað til þess að það hafi gleymst að kenna Íslendingum verðmæti og gildi gagnrýnnar hugsunar í allri orðræðu. Mér verður líka hugsað til þess hversu gríðarlega landlægt eineltið er á Íslandi og ríkt í okkur Íslendingum. Netið er fullt af bullum sem enginn virðist eiga tök á að stöðva vegna þess að þær hafa líka tjáningafrelsi - þó þær virði ekki tjáningarfrelsi okkar hinna að sama skapi.

Ég veit ekki með þig en ég mun ekki leggjast niður á þeirra plan.


Ætli ég flokkist undir

Mikið óskaplega finnst mér þetta dapurlegt orðalag annars ágæts verjanda:

það er ekki hægt að dæma fyrir tilraun til að sofa hjá 13 ára stúlku þegar þú ert búinn að tala við þrítuga kerlingu og svo þarf nú kannski að sýna fram á einhverja kynferðislega tilburði,

Nú er ég komin yfir þrítugt, þýðir það að ég flokkist undir "þrítuga kerlingu"? Eða þarf konan að hafa eitthvað annað til að bera til að verðskulda þessa lýsingu?

Mbl. leyfir eðlilega ekki blogg við fréttina, þar sem margir hafa örugglega löngun til þess að hvæsa yfir niðurstöðunni, en orðfar verjandans er ekki hafið yfir athugasemdir. 


Bjálki? Flís? Eða hvað er málið?

Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja eða hvernig ég á að túlka eftirfarandi ummæli Björns Bjarnasonar

Það má síðan alltaf reyna að þurrka fyrri ummæli út og þykjast eins og þau hafi aldrei verið látin falla. 

 Í ljósi þessara ummæla á Orðinu á götunni:

“Ég lýsi enn undrun minni á því að Helga Seljan sé falið að fjalla um fréttir vikunnar.” Svona endaði færslan í dagbók Björns Bjarnsonar á netinu á föstudagskvöldið.

Núna er hins vegar búið að taka þessa setningu út.


Björn er einmitt mjög iðinn við að breyta færslum eftir að hann birtir þær fyrst og gildir það jafnt um að taka út línur og setja þær inn.


Hjartanlega ósammála

Við erum ekki alltaf sammála ég og Jónas, en ég kippi mér sjaldnast upp við það. Í ljósi færslunnar hér á undan, þá tel ég þó rétt að þegja ekki núna.

Ein af færslum Jónasar frá 17. september:

Persónuverndun glæpamanna
Gallinn við persónuvernd er, að hún er einkum í þágu glæpona. Reiðin út af birtingu skattskrár er upprunnin hjá fólki, sem vill ekki láta koma upp um sig. Gagnrýni á eftirlitsmyndavélar og fingraskanna á rætur sínar í óskum fólks að fela sig fyrir lögum og rétti. Heiðarlegt fólk þarf ekki að óttast skattskrá, eftirlitsmyndir, fingraför, ættir, kennitölu. Gegnsætt samfélag er í þágu venjulegs fólks. Aðrir ramba á jaðri samfélagsins, ofbeldismenn, fíkniefnasalar, skattsvikarar. Þeir vilja, að sem minnst sé um sig vitað. Róttækar hugmyndir um persónuvernd eru fyrst og fremst í þágu glæpamanna.

Ég hef rétt nýlokið við eina ritgerð þar sem ég fjalla um upplýsingasöfnun venjulegra fyrirtækja á persónuupplýsingum venjulegra neytenda - hvorugan hópinn ætla ég glæpamenn. Ekki eru allir sammála mér þar en þó oftar á þann veg að það séu fyrirtækin sem séu glæpamenn, ekki einstaklingarnir.

Eins og ein ritgerð hafi ekki verið nóg, þá er ég með aðra í undirbúningi sem fjallar líka um upplýsingasöfnun venjulegra fyrirtækja á persónuupplýsingum venjulegra neytenda. Sú fyrri fjallaði um örmerkingar (e. Radio Frequency Identification) og nýtingu þeirrar tækni í smásöluverslun en sú síðari fjallar um umferðargögn í fjarskiptarétti (e. data retention), m.a. með tilliti til nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins sem ætlað er að taka gildi nú í haust.

Ég þykist hins vegar vita að það er blaðamaðurinn í Jónasi sem vill ekki persónuverndina, því hún getur takmarkað möguleika blaðamanna til þess að tjá sig um fréttnæma atburði. Þess vegna kippi ég mér ekki mikið upp við það sem hann er að segja, þó ég viti betur. 

Auðvitað á heiðarlegt fólk að óttast óeðlilega söfnun persónuupplýsinga, sérstaklega þegar um er að ræða upplýsingar sem að hluta til eða í heild, geta haft áhrif á fólkið. Söfnun og samkeyrsla gagna á grundvelli kennitölu, fingrafara eða annarra manngreiningaþátta á í eðli sínu að vera eins takmörkuð og unnt er. Það gildir hvort sem söfnunin er á upplýsingum venjulegra neytenda (eins og hjá bönkum, tryggingafélögum eða smávöruverslunum) eða sérstakari hópum (eins og hjá þeim sem misfara með myndbandsspólur).

Ég er hvorki ofbeldismaður, fíkniefnasali né skattsvikari en vil nú samt helst stjórna því sjálf hvaða upplýsingar hinir ýmsu aðilar safna um mig.


Að 4 af 8 starfandi félagsráðgjöfum segi upp er kannski ekkert mikið

Athyglisverð eru orð upplýsingafulltrúans að kalla þá staðreynd kjaftasögu að óvenjumargir starfsmenn barnaverndar hafi sagt upp störfum í kjölfar starfslokasamnings við yfirmann deildarinnar.

Enn athyglisverðara þar sem einhvers misræmis gætir í upplýsingum frá Kópavogsbæ. Þór segir að við yfirmanninn hafi verið gerður starfslokasamningur (og það mjög fljótlega eftir að hún var í samtali við fjölmiðla með áhyggjur af stöðu barnaverndarmála hjá bænum). Einu upplýsingarnar sem koma fram í fungargerðum félagsmálaráðs eru hins vegar að hún hafi sagt upp störfum.

En aftur að fyrirsögninni. Samkvæmt vef Kópavogsbæjar eru 7 félagsráðgjafar starfandi hjá bænum í dag. Í fundargerð félagsmálaráðs frá 21. ágúst sl. kemur fram að 4 hafi sagt upp störfum hjá Félagsþjónustu Kópavogs. Í fundargerð næsta fundar er ein uppsögn dregin til baka, en önnur lögð fram. Ef það eru 7 starfandi og yfirmaðurinn hættur, þá eru stöðugildin væntanlega 8.

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst 4 af 8 óvenju hátt hlutfall. En kannski er það bara kjaftasaga. Kannski er starfsmannaveltan alltaf svona mikil hjá félagsþjónustunni og ekkert nýtt að helmingurinn hætti þetta haustið.


mbl.is „Kjaftasaga að barnaverndarstarfsmenn flýi Kópavog"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú vantar okkur forsendurnar

Fyrir lögfræðinginn væri áhugavert að heyra á hvaða forsendum Frakkinn heldur að hann komist upp með slíkar yfirlýsingar og hvaða lagaboð séu íslenskum lögum æðri í þessum efnum.

Eigum við einhvers staðar þjóðréttarlegar skuldbindingar sem gætu raunverulega leitt til þessarar niðurstöðu[1] eða er maðurinn bara bullari? 

 

[1] Það er ekki hægt að setja fram spurningu sem þessa án þess að geta þess að þjóðréttarlegar skuldbindingar þurfa innleiðingu til þess að borgararnir geti notið þeirra, þannig að á meðan innleiðing hefur ekki átt sér stað þá getur maðurinn ekki staðið á neinu - en forvitnilegt væri að vita hvaða skuldbindingar hann heldur að eigi að leiða að þessari niðurstöðu. 


mbl.is Franskur ökuþór vísar íslenskum lögum á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Advocate General er ekki dómari

Ég veit að það getur verið erfitt að skilja skipulag Evrópusambandsins og er Evrópudómstóllinn þar engin undantekning. En það er nú örlítið of langt gengið að ætla að reyna að koma með þá söguskýringu að yfirdómari segi álit sitt á málinu áður en dómstóllinn sjálfur gerir það.

Hið rétta er að Paolo þessi hefur starfsheitið advocate general, sem þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins þýðir sem aðallögmaður, en ekki yfirdómari.  

Venjan er í evrópurétti að einn af starfandi aðallögmönnum dómstólsins gefur álit sitt (opinion) áður en dómstóllinn kveður upp sinn dóm, og það var það sem hér gerðist. Þess vegna er ekki rétt að segja að Evrópusambandið hafi komist að niðurstöðu, né heldur að Evrópudómstóllinn hafi gert það. Því síður að yfirdómarinn hafi verið að tjá sig. Þetta álit sem nú er fram komið er bara hluti af þeirri venjulegu málsmeðferð sem á sér stað fyrir dómstólnum, þar til opinber niðurstaða er sett fram er best að hafa aðeins hægar um sig.

 


mbl.is Evrópusambandið: Svíar hygla bjórframleiðendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknarhagsmunir vs. tjáningarfrelsi

Já það er athyglisverð niðurstaða héraðsdóms og augljóst að umfjöllun DV um málið á mjög viðkvæmu augnarbliki hefur skaðað mjög rannsóknarhagsmuni í málinu.

Það getur verið erfitt að sitja á upplýsingum sem þessum og er hreinlega spurning hvort hægt sé að gera kröfu til þess. Ef horft er hlutrænt á málið, þá er það að sjálfsögðu fréttnæmt að þetta mikið magn skuli hafa fundist í bíl. En er ekki líka mikilvægt fyrir fjölmiðla að vinna með lögreglu í málum sem þessum?

Er það kannski ekki einmitt mikilvægara að blessaðir mennirnir náist og fái refsingu fyrir ætlað brot, heldur en að færa okkur hinum fréttir um það deginum fyrr eða seinna að 3,8 kíló af kókaíni hafi fundist í bíl í innflutningi.

Ég er almennt mikill útvörður tjáningafrelsis - líka þegar skoðanir manna eru óþægilegar - en ég held að þarna liggi mörkin.


mbl.is Sýknaðir af ákæru vegna innflutnings á 3,8 kg af kókaíni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki gleyma eineltinu

Það er alltaf gott að heyra að ótímabær andlát leiði til vakningar af þessu tagi. Í fréttinni er minnst á að leitað verði til barnaverndaryfirvalda til þess að fá upplýsingar um hvernig fénu verði vel varið. Mér finnst það reyndar augljóst. Ótrúlega hreinskilin minningargrein föðursins sagði það allt:

Hringingin úr skólanum sagði að ekki væri allt sem sýndist. Susie er þjófur! Hún stelur peningum frá foreldrum sínum og öðrum og slær um sig með sælgæti í skólanum. Nú varð að beita hana viðurlögum og aga, bæði í skóla og á heimili. Hún virtist ekki aðlagast í skólanum og grúfði sig yfir bækur, m.a.s. Dostojevskí. Það var ekki fyrr en miklu seinna, langtum seinna, að hún sagði okkur að hún hefði notað sælgætið til að blíðka kvalara sína. Allir brugðust henni, mest ég. Skilningsskortur og hugleysi er synd og syndir feðranna munu koma niður á börnunum.

Úr Miðskólanum kom Susie með kramið hjarta og slíkt hjartasár skilur eftir ör sem aldrei hverfa. Seinna þegar hún Susie bjó til lista yfir þá sem hún ætlaði að fyrirgefa var að lokum eitt nafn eftir á listanum; nafn þeirrar sem hafði sig mest í frammi. (leturbr. mín)

 Það er margítrekuð saga að þeir sem líklegastir eru til þess að ánetjast fíkniefnum eru þeir sem einhverra hluta vegna hafa brotna sjálfsmynd. Í hennar tilviki, eins og hjá svo mörgum öðrum, var það eineltið. Á hverju einasta ári útskrifast nemendur úr grunnskólum landsins með mölvaða sjálfsmynd vegna eineltis skólafélaganna, sumir jafnvel útskrifast ekki því þeir hafa helst úr lestinni.

Ég legg til að byrjað verði þar. 


mbl.is Minningarsjóður um Susie Rut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var hver líflátinn?

Fyrst þegar ég las fréttina hélt ég hreinlega að sumarafleysingafólkið kynni ekki mannkynssöguna ... en svo fattaði ég að líklegast væri þetta bara spurning um að orða setningar betur, til að skilaboðin komist til skila:

Stauffenberg er hetja í Þýskalandi fyrir þátt sinn í að ráða Hitler af dögum þann 20. júlí 1944. Ætlunin var að smygla tveimur skjalatöskum með sprengjum inn á skrifstofu foringjans en þegar það gekk ekki var hann líflátinn daginn eftir.

Var það Hitler sem var líflátinn? Eða var það kannski Stauffenberg? Það er amk ekki auðvelt að greina það við lestur fréttarinnar. 


mbl.is Faðirinn, sonurinn og Tom Cruise
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband