18.2.2009 | 11:58
Þeir afmáðu ekki mikið þegar ég hætti
Ég afskráði mig af Facebook seint haustið 2007 eftir róttækar breytingar þeirra í átt að misnotkun persónuupplýsinga. Fjarlægði allar upplýsingar og valdi "deactivate" á notandann minn.
Þegar ég skráði mig aftur 14 mánuðum seinna, af því ég valdi að nota Facebook þrátt fyrir persónuinnrásir, þá voru allar upplýsingarnar um mig þarna ennþá og í millitíðinni höfðu komið vinabeiðnir og boð um hina og þessa hluti.
Einar 300 "requests" af ýmsu tagi biðu mín við nýskráningu mína.
Það virðist nefnilega lítið að marka þetta batterí, þeir fara ekki einu sinni eftir gildandi skilmálum.
Ég minni þess vegna á fyrri færslu mína um þessi efni Lágmarksupplýsingar, Firefox, Adblock og Flashblock eru málið. Hótel Kalifornía er komið á netið.
Facebook kúvendir í skilmálabreytingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.2.2009 | 14:14
Að ÞÆR fái þriðja sætið örugglega!
Það vantar ekki jafnaðarhugsjónina. Ef hann getur ekki verið öruggur um sitt þriðja sæti, greinilega á eftir tveimur öðrum karlmönnum, þá tekur hann ekki þátt. Eða er það ekki það sem maðurinn er að segja? Hann virðist gefa sér að tvö fyrstu sætin séu frátekin fyrir karlmenn og að ÞÆR konurnar fái örugglega þriðja sætið á grundvelli "aldrei fleiri en tveir af sama kyni í röð" reglunnar, og jafnvel fjórða sætið líka.
Þá er ekkert eftir nema fimmta sætið fyrir hann, og það er ekki eftirsóknarvert.
... en hefði konan þurft að sætta sig við fimmta sætið af því hún komst ekki ofar í prófkjörinu - tja, það er jafnrétti, er það ekki?
Dregur framboð sitt til baka vegna kynjakvóta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.2.2009 | 16:27
Nei takk!
Ég ætla að vera alveg hreinskilin hér:
Jón Baldvin, þinn tími er farinn.
Ef einhverra hluta vegna Ingibjörg Sólrún getur ekki eða vill ekki vera áfram formaður Samfylkingarinnar, þá er það fólk framtíðarinnar en ekki fortíðarinnar sem mun taka við keflinu.
Jón vill að Ingibjörg víki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.2.2009 | 15:20
Ja hérna og náðasamlegast hér - endurupptekið
Ég skrifaði færslu á þetta blogg fyrir tæpum 15 mánuðum síðan. Þetta var þegar vinstri meirihluti hafði komist á í borginni og REI málið (ásamt fleirum) var í algleymingi. Aðstæður eru aðrar, ástæður eru aðrar en ég held að það sé lífsnauðsynlegt að endurtaka það sem ég sagði þá. Niðurlagið hefst á þessum orðum:
"En af hverju er ég að minnast á þetta allt saman? Fyrst og fremst stuðaði þetta mig. Við búum í lýðræðisríki og við heimtum tjáningarfrelsi, skoðanafrelsi, félagafrelsi, atvinnufrelsi og allt hitt frelsið sem við höfum fengið skráð í mannréttindakafla stjórnarskrár okkar. Við ætlumst til þess að eftir málflutningi okkar sé tekið, við viljum reyna að hafa með honum áhrif og vonumst til þess að þau verði góð. En það fyrsta sem okkur virðist vera tamt, þegar maðurinn á móti lætur í ljós skoðun sem okkur líkar ekki, eða fer gegn okkar stjórnmálaskoðun, lífstrú eða hverju öðru. Það fyrsta sem við gerum er að hrauna - dæla fúkyrðum og ónotum og öðrum ómerkilegheitum í manneskjuna, í málefnið, í hreyfinguna, nú eða í allt þrennt á sama tíma. Við alhæfum og við gerum öðrum upp skoðanir. Við níðum og lemjum og tröðkum og spörkum. ... Eini munurinn á okkur og "almennum ofbeldismönnum" er að við beitum orðum, þeir beita hnefum."
Ég feitletraði það mikilvægasta. Lesist að breyttu breytanda:
"Ég get nú ekki orða bundist lengur.
Sit við skriftir og á því ekkert að vera að ibbast upp á blogg, en ég stalst krúsina í kvöld og skoðaði færslur ýmissa aðila undanfarna daga, ásamt með athugasemdum við þær. Ég kemst ekki yfir það hvað við búum í skelfilega heiftúðugu þjóðfélagi hérna á Íslandi. Flestar eiga umræðurnar það sammerkt að í stað þess að ræða málefnalega um umræðuefnið sem verður uppspretta fyrstu bloggfærslunnar (sem nota bene eru alls ekki allar málefnalegar) taka við gríðarleg níð, málefnið er nítt, persónan er nídd og jafnvel heilu flokkarnir eða fylkingarnar fordæmdar fyrir að vera "vondar" - allt til að þurfa ekki að mætast með rökum. Tökum nokkur dæmi:
Ég las færslur um lokun á vefsíðum sem sumir vilja meina að brjóti gegn íslenskum lögum. Hraunað var yfir alla aðila þess máls, ýmist þannig að netverjarnir hraunuðu yfir rétthafana nú eða rétthafarnir (og stuðningsmenn þeirra) yfir netverjana - þar hallar ekkert á og menn veigra ekki fyrir sér að nota orðtök eins og "bólugrafnir unglingar með bremsuför" (eða hvernig sem maðurinn orðaði það nákvæmlega). Hérna voru sem sagt gríðarlega vondir menn að taka á gríðarlegum þjófum sem líkja mátti við morðingja, hvorki meira né minna. Og að sama skapi, frá hinu sjónarhorninu, gríðarlega saklausir einstaklingar að njóta efnis án endurgjalds sem þeir hefðu hvort sem er aldrei keypt, enda milliliðirnir (dreifingaraðilarnir og rétthafasamtökin) gríðarlega gráðugir og hirða allan ágóðann af saklausum frumhöfundunum. Það dugði ekkert minna en stórskotahríð og ég verð að viðurkenna að fáar voru þær færslurnar eða athugasemdirnar sem ræddu málefnalega um lausn (en þær voru þó þarna inn á milli, ein eða þrjár).
Ég las líka færslur um slagsíðu í umræðu og gestavali hjá Agli Helgasyni. Þar tókust á (held ég) feministar og and-femínistar, og fólk og jafnaðarmenn. Fulltrúar feðraveldis og andstæðingar þess. Uppspretta alls hins illa og englar - svona næstum því. Þar var engu minni stórskotahríðin, einstaka persónugerfðir [svo] einstaklingar hreinlega taldir bera ábyrgð á því að banna ætti feminisma yfirhöfuð (eða var það ekki þannig?). Enda engin ástæða til þess að ræða jafnrétti á neinum þeim nótum sem þau hafa beitt. Þessum skæruliðum átti að eyða líktog hinum sem berjast á grundvelli trúarbragða - eða því sem næst. Enn hallaði ekki mikið á, í nafni feminisma og kröfu um jafnan rétt var orðunum beitt og í nafni nauðfengins and-feminisma (vegna ofsa og öfga feministanna) var enn fleiri orðum beitt. Mín eina hugsun við þennan lestur var "er einhver hissa á að konur hiki við að tjá sig?" Þær eru nefnilega vafalaust margar sem skortir sjálfstraustið og/eða hugrekkið til þess að standa í viðlíka orrarhríð og þær sem barist hafa fyrir bleiku gera.
Sem leiðir hugann að færslunum um ungbarnafötin. Með henni tókst (karl)mönnum hreinlega að finna skotspón á heilan stjórnmálaflokk - eða að minnsta kosti fyrirgerði konan sem hóf umræðuna sér allan rétt á tjáningarfrelsi með henni.
Og þær voru fleiri ... og þær fjölluðu um fleira og fjölbreyttara svið mannlífsins. Ég gæti nefnt OR/REI en það væri líklegast að æra óstöðugan enda flest málefnalegt horfið úr þeirri umræðu - svona á flestum vígstöðvum. Svo ég tali nú ekki um fjaðrafokið í kringum tímasetningar á bloggfærslum eins af ráðherrunum okkar. Maðurinn blammerar það er vitað, maðurinn sefur greinilega ekki mikið (eða fer a.m.k. seint að sofa) það er líka vitað. Hvers vegna í ósköpunum þarf að væna hann um alkóhólisma eða annað óráð fyrir það eitt að nýta sér stjórnarskrárbundinn rétt sinn á öðrum tíma en sæmir rétttrúuðum? Ekki það, það er verst fyrir hann ef ástæðan er eitthvað í líkingu við gróuna. Svo ekki sé minnst á blessaðan útlendinginn sem vogaði sér að gerast íslenskur og komast á þing, mann sem hafði í ofanálag vogað sér að beita gagnrýnni hugsun með (að því er virðist) andíslenskum hætti (eða var það andbarnískur, væri það orð?). Fyndnust var nú samt litla og þrönga orrahríðin sem geisaði milli Stefáns og Jens í hálfan annan sólarhring, held ég, þar sem varla var raunverulega málefnalegt strá að finna - útúrsnúningar og teknókratískar rökræður par exelans.
En af hverju er ég að minnast á þetta allt saman? Fyrst og fremst stuðaði þetta mig. Við búum í lýðræðisríki og við heimtum tjáningarfrelsi, skoðanafrelsi, félagafrelsi, atvinnufrelsi og allt hitt frelsið sem við höfum fengið skráð í mannréttindakafla stjórnarskrár okkar. Við ætlumst til þess að eftir málflutningi okkar sé tekið, við viljum reyna að hafa með honum áhrif og vonumst til þess að þau verði góð. En það fyrsta sem okkur virðist vera tamt, þegar maðurinn á móti lætur í ljós skoðun sem okkur líkar ekki, eða fer gegn okkar stjórnmálaskoðun, lífstrú eða hverju öðru. Það fyrsta sem við gerum er að hrauna - dæla fúkyrðum og ónotum og öðrum ómerkilegheitum í manneskjuna, í málefnið, í hreyfinguna, nú eða í allt þrennt á sama tíma. Við alhæfum og við gerum öðrum upp skoðanir. Við níðum og lemjum og tröðkum og spörkum. ... Eini munurinn á okkur og "almennum ofbeldismönnum" er að við beitum orðum, þeir beita hnefum.
Ætli einhverjum hafi dottið í hug að orð hafa líka áhrif?
Ég held það nefnilega. Mér verður hugsað til þöggunarþjóðfélags fortíðarinnar og minnist þess að aðrir hafa á undan mér nefnt þöggunarþjóðfélag nútíðarinnar. Mér verður hugsað til þess að það hafi gleymst að kenna Íslendingum verðmæti og gildi gagnrýnnar hugsunar í allri orðræðu. Mér verður líka hugsað til þess hversu gríðarlega landlægt eineltið er á Íslandi og ríkt í okkur Íslendingum. Netið er fullt af bullum sem enginn virðist eiga tök á að stöðva vegna þess að þær hafa líka tjáningafrelsi - þó þær virði ekki tjáningarfrelsi okkar hinna að sama skapi.
Ég veit ekki með þig en ég mun ekki leggjast niður á þeirra plan."
Trúnaðarbrestur óviðunandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.2.2009 | 21:03
Björn Friðfinnsson?
"Vitað er að ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins og helsti tengiliður við prógramm Alþjóða gjaldeyrissjóðinn hefur verið þvingaður út úr ráðuneytinu með áður fordæmalausum hætti, að því er segir í bréfi Davíðs."
Man einhver eftir máli Björns Friðfinnsonar fv. ráðuneytisstjóra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu?
Bolli er í leyfi frá störfum ráðuneytisstjóra til 30. apríl 2009, það er ekki fyrr en eftir þann tíma sem menn gætu mögulega farið að ræða fordæmalausa hætti, þó svo mál Björns Friðfinnssonar sýna svo um munar að hefði Bolli verið látinn fara, þá væri það ekki fordæmalaust.
Davíð segir ekki af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2009 | 13:49
Hvað eru pólitískar hreinsanir?
Við lestur þessarar fréttar og sumra athugasemdanna sem við hana eru festar, vaknaði upp hjá mér þessi spurning: "Hvað eru pólitískar hreinsanir?"
Ég er ekki viss um að ég hafi svar en mér sýnist að hægt sé að skilgreina pólitískar hreinsanir með fleiri en einum hætti.
Eru það ekki pólitískar hreinsanir þegar hlutlaus embætti mönnuð með pólitískum hvötum eru hreinsuð af slíkri mönnun? Ég held að öllum sé það ljóst, jafnvel hörðustu Sjálfstæðismönnum í heimastjórnararmi, að enginn seðlabankastjóranna þriggja hafi verið faglega valinn. Þeir voru allri skipaðir til starfa sinna á grundvelli pólitískrar helmingaskiptareglu og þá skiptir engu máli hversu hæfir þeir reynast til starfans eftir að þangað er komið. Baldur Guðlaugsson var heldur ekki faglega valinn sem ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu á sínum tíma. Hann var innsti koppur í heimastjórnararmi Flokksins og einn af Eimreiðarhópnum svo kallaða sem samanstóð m.a. af Davíð Oddssyni, Þorsteini Pálssyni, Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, Geir H. Haarde, Baldri Guðlaugssyni, Brynjólfi Bjarnasyni, Kjartani Gunnarssyni, Magnúsi Gunnarssyni og Jóni Steinari Gunnlaugssyni.
Ráðstöfun embætta og ríkisforstjóra til Eimreiðarhópsins er síðan að sjálfsögðu efni í heilan pistil en ég sé ekki betur en að þeir séu nú eða hafi verið seðlabankastjórar, ritstjórar útbreiddasta dagblaðsins, háskólaprófessorar, fyrrverandi forsætis- og/eða fjármálaráðherrar, ráðuneytisstjórar, forstjórar ríkisfyrirtækja og Hæstaréttardómarar og eru þá ótaldar allar nefndirnar sem mennirnir hafa verið skipaðir í á vegum ríkisins.
Ég held að það efist enginn um hlutleysi þessara manna - þvert á móti, það er öllum ljóst að hlutleysið er lítið eða ekkert og ráðning þeirra og skipan í þau embætti sem áður eru talin, til þess gerð að koma fyrir réttum mönnum á réttum stöðum til þess að hafa áhrif á ferla og ákvarðanir.
Ef það kallast pólitískar hreinsanir að hreinsa pólitískar skipanir úr embættum - er það þá eitthvað slæm aðgerð?
Ég er ekki viss.
Pólitískar hreinsanir og ofsóknir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.2.2009 | 15:52
Björgvin þiggur ekki biðlaunin
Það má skilja á þessari frétt að Björgvin G. taki við 6 mánaða biðlaunum að loknum febrúarlaunum. Þess vegna er rétt að minna á að hann hafði áður afsalað sér rétti sínum til biðlauna.
Það væri óskandi að aðrir gerðu slíkt hið sama en bæru ekki fyrir sig að venjan væri að þiggja það sem að þeim væri rétt.
Verða á launum út febrúarmánuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.2.2009 | 20:52
Lágmarksupplýsingar, Firefox, Adblock og Flashblock eru málið
Þannig má losna við allar auglýsingar og markaðsupplýsingaáreiti.
Mikilvægt er að sjálfsögðu að gefa ekki of mikið af upplýsingum um sig til þess þess að markaðsprófíllinn verði ekki of nákvæmur. Þátttaka í könnunum (eins og mjög vinsælum tónlistar og kvikmyndakönnunum) eru einnig afar óskynsamlegar, hafirðu snefil af verndarvilja á persónuupplýsingum þínum.
Facebook: Notendurnir notaðir til markaðsrannsókna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.1.2009 | 18:18
Stefnir allt í að Framsókn verði höfundur stjórnarsáttmála Sf og VG?
Skil ég manninn rétt, er Sigmundur raunverulega að hreykja sér af því að allt stefni í að Framsóknarflokkurinn sé höfundur stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og Vinstri grænna?
Er þá ekki alveg útséð með hverjum á að refsa í næstu kosningum ef aðgerðaráætlun væntanlega komandi ríkisstjórnar gengur ekki upp?
Samfylking beitti klækjabrögðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.2.2009 kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2009 | 17:09
Maðurinn með eiginleika strútsins
Það var og.
Það eru 13.000 manns skráðir atvinnulausir og spáð er að 18.000 manns verði á atvinnuleysisskrá eftir örfáa mánuði. Brúttóskuldir ríkissjóðs stefna í rúmlega tvö þúsund milljarða króna og skuldir umfram eignir hafa þegar verið nefndar sem fimm hundruð milljarðar. Þjóðarbúið dregst saman um 10% á árinu. Stýrivextir eru 18%, almennir yfirdráttarvextir hæst nálægt 30%. Hvert mannsbarn á Íslandi mun líklegast skulda margar milljónir. Við erum ekki viðurkennd á almennum fjármálamörkuðum og gengi krónunnar á alþjóðlegum mörkuðum, ef hún hefur verið reiknuð, er á bilinu 200-220 kr fyrir evruna. Og þá er ég ekkert búin að nefna um vextina sem við þurfum að bera af öllum lánunum sem hafa verið nefnd.
En maður lifandi, Geir hefur alveg rétt fyrir sér. Ástandið er ekki svo slæmt - bara sirka svona eins og það var árið 2006.
Geir óttast sundrung og misklíð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |