Ja hérna og náðasamlegast hér

Ég get nú ekki orða bundist lengur.

Sit við skriftir og á því ekkert að vera að ibbast upp á blogg, en ég stalst krúsina í kvöld og skoðaði færslur ýmissa aðila undanfarna daga, ásamt með athugasemdum við þær. Ég kemst ekki yfir það hvað við búum í skelfilega heiftúðugu þjóðfélagi hérna á Íslandi. Flestar eiga umræðurnar það sammerkt að í stað þess að ræða málefnalega um umræðuefnið sem verður uppspretta fyrstu bloggfærslunnar (sem nota bene eru alls ekki allar málefnalegar) taka við gríðarleg níð, málefnið er nítt, persónan er nídd og jafnvel heilu flokkarnir eða fylkingarnar fordæmdar fyrir að vera "vondar" - allt til að þurfa ekki að mætast með rökum. Tökum nokkur dæmi:

Ég las færslur um lokun á vefsíðum sem sumir vilja meina að brjóti gegn íslenskum lögum. Hraunað var yfir alla aðila þess máls, ýmist þannig að netverjarnir hraunuðu yfir rétthafana nú eða rétthafarnir (og stuðningsmenn þeirra) yfir netverjana - þar hallar ekkert á og menn veigra ekki fyrir sér að nota orðtök eins og "bólugrafnir unglingar með bremsuför" (eða hvernig sem maðurinn orðaði það nákvæmlega). Hérna voru sem sagt gríðarlega vondir menn að taka á gríðarlegum þjófum sem líkja mátti við morðingja, hvorki meira né minna.  Og að sama skapi, frá hinu sjónarhorninu, gríðarlega saklausir einstaklingar að njóta efnis án endurgjalds sem þeir hefðu hvort sem er aldrei keypt, enda milliliðirnir (dreifingaraðilarnir og rétthafasamtökin) gríðarlega gráðugir og hirða allan ágóðann af saklausum frumhöfundunum. Það dugði ekkert minna en stórskotahríð og ég verð að viðurkenna að fáar voru þær færslurnar eða athugasemdirnar sem ræddu málefnalega um lausn (en þær voru þó þarna inn á milli, ein eða þrjár).

Ég las líka færslur um slagsíðu í umræðu og gestavali hjá Agli Helgasyni. Þar tókust á (held ég) feministar og and-femínistar, og fólk og jafnaðarmenn. Fulltrúar feðraveldis og andstæðingar þess. Uppspretta alls hins illa og englar - svona næstum því. Þar var engu minni stórskotahríðin, einstaka persónugerfðir einstaklingar hreinlega taldir bera ábyrgð á því að banna ætti feminisma yfirhöfuð (eða var það ekki þannig?). Enda engin ástæða til þess að ræða jafnrétti á neinum þeim nótum sem þau hafa beitt. Þessum skæruliðum átti að eyða líktog hinum sem berjast á grundvelli trúarbragða - eða því sem næst. Enn hallaði ekki mikið á, í nafni feminisma og kröfu um jafnan rétt var orðunum beitt og í nafni nauðfengins and-feminisma (vegna ofsa og öfga feministanna) var enn fleiri orðum beitt. Mín eina hugsun við þennan lestur var "er einhver hissa á að konur hiki við að tjá sig?" Þær eru nefnilega vafalaust margar sem skortir sjálfstraustið og/eða hugrekkið til þess að standa í viðlíka orrarhríð og þær sem barist hafa fyrir bleiku gera.

Sem leiðir hugann að færslunum um ungbarnafötin. Með henni tókst (karl)mönnum hreinlega að finna skotspón á heilan stjórnmálaflokk - eða að minnsta kosti fyrirgerði konan sem hóf umræðuna sér allan rétt á tjáningarfrelsi með henni.

Og þær voru fleiri ... og þær fjölluðu um fleira og fjölbreyttara svið mannlífsins. Ég gæti nefnt OR/REI en það væri líklegast að æra óstöðugan enda flest málefnalegt horfið úr þeirri umræðu - svona á flestum vígstöðvum. Svo ég tali nú ekki um fjaðrafokið í kringum tímasetningar á bloggfærslum eins af ráðherrunum okkar. Maðurinn blammerar það er vitað, maðurinn sefur greinilega ekki mikið (eða fer a.m.k. seint að sofa) það er líka vitað. Hvers vegna í ósköpunum þarf að væna hann um alkóhólisma eða annað óráð fyrir það eitt að nýta sér stjórnarskrárbundinn rétt sinn á öðrum tíma en sæmir rétttrúuðum? Ekki það, það er verst fyrir hann ef ástæðan er eitthvað í líkingu við gróuna. Svo ekki sé minnst á blessaðan útlendinginn sem vogaði sér að gerast íslenskur og komast á þing, mann sem hafði í ofanálag vogað sér að beita gagnrýnni hugsun með (að því er virðist) andíslenskum hætti (eða var það andbarnískur, væri það orð?). Fyndnust var nú samt litla og þrönga orrahríðin sem geisaði milli Stefáns og Jens í hálfan annan sólarhring, held ég, þar sem varla var raunverulega málefnalegt strá að finna - útúrsnúningar og teknókratískar rökræður par exelans.

En af hverju er ég að minnast á þetta allt saman? Fyrst og fremst stuðaði þetta mig. Við búum í lýðræðisríki og við heimtum tjáningarfrelsi, skoðanafrelsi, félagafrelsi, atvinnufrelsi og allt hitt frelsið sem við höfum fengið skráð í mannréttindakafla stjórnarskrár okkar. Við ætlumst til þess að eftir málflutningi okkar sé tekið, við viljum reyna að hafa með honum áhrif og vonumst til þess að þau verði góð. En það fyrsta sem okkur virðist vera tamt, þegar maðurinn á móti lætur í ljós skoðun sem okkur líkar ekki, eða fer gegn okkar stjórnmálaskoðun, lífstrú eða hverju öðru. Það fyrsta sem við gerum er að hrauna - dæla fúkyrðum og ónotum og öðrum ómerkilegheitum í manneskjuna, í málefnið, í hreyfinguna, nú eða í allt þrennt á sama tíma. Við alhæfum og við gerum öðrum upp skoðanir. Við níðum og lemjum og tröðkum og spörkum. ... Eini munurinn á okkur og "almennum ofbeldismönnum" er að við beitum orðum, þeir beita hnefum.

Ætli einhverjum hafi dottið í hug að orð hafa líka áhrif?

Ég held það nefnilega. Mér verður hugsað til þöggunarþjóðfélags fortíðarinnar og minnist þess að aðrir hafa á undan mér nefnt þöggunarþjóðfélag nútíðarinnar. Mér verður hugsað til þess að það hafi gleymst að kenna Íslendingum verðmæti og gildi gagnrýnnar hugsunar í allri orðræðu. Mér verður líka hugsað til þess hversu gríðarlega landlægt eineltið er á Íslandi og ríkt í okkur Íslendingum. Netið er fullt af bullum sem enginn virðist eiga tök á að stöðva vegna þess að þær hafa líka tjáningafrelsi - þó þær virði ekki tjáningarfrelsi okkar hinna að sama skapi.

Ég veit ekki með þig en ég mun ekki leggjast niður á þeirra plan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Góð ádrepa, Elfur mín, en maður má stríða svolítið!

María Kristjánsdóttir, 1.12.2007 kl. 12:06

2 Smámynd: Elfur Logadóttir

Já maður má stríða, ef maður er viss um að sá sem maður stríðir gerir sér grein fyrir því að um stríðni er að ræða. Enda getur stríðni vel verið málefnaleg, í sjálfu sér.

Elfur Logadóttir, 4.12.2007 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband