Hvernig er hægt að verða svona margsaga?

Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei haft mikla trú á Vilhjálmi og trúað þeim sem hafa kallað hann ref, en ég held að ég hefði aldrei getað gert mér í hugarlund að einn maður myndi reyna að bera fram fyrir alþjóð eins margar mismunandi útgáfur af ferli eins máls eins og maðurinn hefur gert á síðastliðnum 10 dögum. Ef ég væri ekki að skrifa meistaraprófsritgerð þá myndi ég láta mig hafa það að hlusta á upptökur allra fréttatíma og lesa eintök allra dagblaðanna sem berast inn á heimilið til þess að kortleggja sögurnar og hvenær og hvar þær breytast.

En eftir stendur spurningin hvort manninum sé stætt að taka frekari þátt í opinberri umræðu - það virðist með engu móti unnt að gera ráð fyrir því að út úr honum komi sannleikskorn hvort sem er. 


mbl.is Borgarstjóri upplýstur um samning til 20 ára þann 23. september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingsályktunartillaga - stjórnarskipunarlög ... hver er munurinn?

Það hljómaði eitthvað skakkt að bera fram þingsályktunartillögu um lögbundna þætti í stjórnskipuninni þannig að ég fór inn á vef Alþingis og sá fljótt að þingsályktunartillagan sem rædd er í fréttinni reyndist vera frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Frumvarp til þess að breyta stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er örlítið stærra en þingsályktunartillaga.

Að sjálfsögðu má síðan efast um tilgang þess að leggja fram frumvarp til breytingar á stjórnarskránni á fyrsta starfsári Alþingis eftir kosningar, þar sem stjórnarskrá verður ekki breytt nema rjúfa þing og boða til kosninga. Er Siv virkilega tilbúin í nýjar kosningar?

http://www.althingi.is/altext/135/s/0024.html 


mbl.is Vilja að ráðherrar víki úr þingsæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjartanlega ósammála

Við erum ekki alltaf sammála ég og Jónas, en ég kippi mér sjaldnast upp við það. Í ljósi færslunnar hér á undan, þá tel ég þó rétt að þegja ekki núna.

Ein af færslum Jónasar frá 17. september:

Persónuverndun glæpamanna
Gallinn við persónuvernd er, að hún er einkum í þágu glæpona. Reiðin út af birtingu skattskrár er upprunnin hjá fólki, sem vill ekki láta koma upp um sig. Gagnrýni á eftirlitsmyndavélar og fingraskanna á rætur sínar í óskum fólks að fela sig fyrir lögum og rétti. Heiðarlegt fólk þarf ekki að óttast skattskrá, eftirlitsmyndir, fingraför, ættir, kennitölu. Gegnsætt samfélag er í þágu venjulegs fólks. Aðrir ramba á jaðri samfélagsins, ofbeldismenn, fíkniefnasalar, skattsvikarar. Þeir vilja, að sem minnst sé um sig vitað. Róttækar hugmyndir um persónuvernd eru fyrst og fremst í þágu glæpamanna.

Ég hef rétt nýlokið við eina ritgerð þar sem ég fjalla um upplýsingasöfnun venjulegra fyrirtækja á persónuupplýsingum venjulegra neytenda - hvorugan hópinn ætla ég glæpamenn. Ekki eru allir sammála mér þar en þó oftar á þann veg að það séu fyrirtækin sem séu glæpamenn, ekki einstaklingarnir.

Eins og ein ritgerð hafi ekki verið nóg, þá er ég með aðra í undirbúningi sem fjallar líka um upplýsingasöfnun venjulegra fyrirtækja á persónuupplýsingum venjulegra neytenda. Sú fyrri fjallaði um örmerkingar (e. Radio Frequency Identification) og nýtingu þeirrar tækni í smásöluverslun en sú síðari fjallar um umferðargögn í fjarskiptarétti (e. data retention), m.a. með tilliti til nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins sem ætlað er að taka gildi nú í haust.

Ég þykist hins vegar vita að það er blaðamaðurinn í Jónasi sem vill ekki persónuverndina, því hún getur takmarkað möguleika blaðamanna til þess að tjá sig um fréttnæma atburði. Þess vegna kippi ég mér ekki mikið upp við það sem hann er að segja, þó ég viti betur. 

Auðvitað á heiðarlegt fólk að óttast óeðlilega söfnun persónuupplýsinga, sérstaklega þegar um er að ræða upplýsingar sem að hluta til eða í heild, geta haft áhrif á fólkið. Söfnun og samkeyrsla gagna á grundvelli kennitölu, fingrafara eða annarra manngreiningaþátta á í eðli sínu að vera eins takmörkuð og unnt er. Það gildir hvort sem söfnunin er á upplýsingum venjulegra neytenda (eins og hjá bönkum, tryggingafélögum eða smávöruverslunum) eða sérstakari hópum (eins og hjá þeim sem misfara með myndbandsspólur).

Ég er hvorki ofbeldismaður, fíkniefnasali né skattsvikari en vil nú samt helst stjórna því sjálf hvaða upplýsingar hinir ýmsu aðilar safna um mig.


Ritgerð um örmerkingar farin til endurgjafar

Jæja, þá er laganámi mínu í Noregi óformlega lokið. Því lýkur formlega þegar ég fæ einkunnina og skírteinið í hendur :)

Ég skilaði ritgerðinni til skólans í morgun. Ritgerðin sem ber heitið: Radio Frequency Identfication and its effect on Privacy: How does the EPCglobal Standard fit into the regulatory environment of the European Union? fjallar um lagaleg áhrif örmerkinga á persónuvernd einstaklinga með sérstaka áherslu á bandarískan staðal sem reynt er að gera alþjóðlegan.

Nú hef ég tíma á meðan kennarinn fer yfir verkið, til þess að undirbúa kynningu á ritgerðinni, sem hefur frá ýmsu áhugaverðu að segja, svona heilt yfir.

Þangað til næst ... 


Að 4 af 8 starfandi félagsráðgjöfum segi upp er kannski ekkert mikið

Athyglisverð eru orð upplýsingafulltrúans að kalla þá staðreynd kjaftasögu að óvenjumargir starfsmenn barnaverndar hafi sagt upp störfum í kjölfar starfslokasamnings við yfirmann deildarinnar.

Enn athyglisverðara þar sem einhvers misræmis gætir í upplýsingum frá Kópavogsbæ. Þór segir að við yfirmanninn hafi verið gerður starfslokasamningur (og það mjög fljótlega eftir að hún var í samtali við fjölmiðla með áhyggjur af stöðu barnaverndarmála hjá bænum). Einu upplýsingarnar sem koma fram í fungargerðum félagsmálaráðs eru hins vegar að hún hafi sagt upp störfum.

En aftur að fyrirsögninni. Samkvæmt vef Kópavogsbæjar eru 7 félagsráðgjafar starfandi hjá bænum í dag. Í fundargerð félagsmálaráðs frá 21. ágúst sl. kemur fram að 4 hafi sagt upp störfum hjá Félagsþjónustu Kópavogs. Í fundargerð næsta fundar er ein uppsögn dregin til baka, en önnur lögð fram. Ef það eru 7 starfandi og yfirmaðurinn hættur, þá eru stöðugildin væntanlega 8.

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst 4 af 8 óvenju hátt hlutfall. En kannski er það bara kjaftasaga. Kannski er starfsmannaveltan alltaf svona mikil hjá félagsþjónustunni og ekkert nýtt að helmingurinn hætti þetta haustið.


mbl.is „Kjaftasaga að barnaverndarstarfsmenn flýi Kópavog"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klukkuð

Maja[1] frænka klukkaði mig í miðjum búferlaflutningum þannig að ég góðfúslega tók ekki eftir því. En það er víst ekki hægt að dyljast endalaust, þannig að nú tek ég þátt í leiknum - þegar hann er löngu orðinn kaldur án þess að vera kúl.

  1. Ég slít alltaf keðjur sem mér eru sendar. Les alltaf brandara en sendi sjaldnast frá mér. Rökfræðilega hefði ég þess vegna ekki átt að taka þátt í þessu klukki.
  2. Ég Heartpóstsíur. Ég hef fengið að lágmarki 300 tölvupósta á dag í bráðum 10 ár og hefði ekki lifað það af án þeirra. Merkilegt þó að átta sig á að í upphafi var 1% móttekinna bréfa rusl - í dag er 1% móttekinna bréfa ekki rusl.
  3. Ég hef búið í 2 húsum hartnær 90% af ævi minni. Síðustu 10% í 4 húsum (eða var það 5, best að spyrja mömmu næst þegar ég hitti hana).
  4. Í kjölfar þess að kaldhæðni mín og húmor að öðru leyti fór öfugt í gegnum tölvubréfið hjá einhverjum viðmælandanum fyrir einhverjum árum síðan, tók ég unglingslegu ástfóstri við broskalla - hverja ég misnota við hvert tækifæri núorðið :).
  5. Ég á óskaplega erfitt með að tjá mig eftir pöntunum (sérstaklega svona klukk-pöntunum) - en ligg sjaldnast á skoðun minni þess á milli.
  6. Ég er flutt aftur til Íslands (Ég flutti til Noregs í eitt ár, fyrir ykkur sem vissuð það ekki :))
  7. Ég er forfallinn spilasjúklingur - í jákvæðustu merkingu þess orðs. Ég spila aldrei uppá peninga en þú gætir næstum því lagt fyrir mig hvaða borðspil sem er og ég hætti ekki fyrr en ég kann það - og vinn það! Ef þú átt t.d. Íslenska efnahagsspilið eða gamla Rallý spilið, eða jafnvel eldri útgáfuna af Partíspilinu ... Ekki spurning, ég er game. Kynntist m.a. nýju borðspili úti sem er frábært líka - verst að ég man ekki nafnið á því.
  8. Ég er gleymin! Ég sem mundi allt, þuldi allt or skannaði svo hratt að ég vissi allt, heilinn er greinilega að eldast og þreytast, því ekkert af þessu virkar lengur - svo neinu nemi.

Ég ætla ekki að klukka neinn, enda leikurinn sjálfdauður og allir búnir með skammtinn sinn hvort sem er.

 

[1] Maja/Mæja ... ég get aldrei ákveðið mig hvernig þetta á að skrifast - alveg eins og í gamla daga, þrátt fyrir að ég kynni j/i regluna uppá hár - þá vildi ég samt alltaf skrifa Gauji - af því mér fannst það flottara (shrug).  

 



Nú vantar okkur forsendurnar

Fyrir lögfræðinginn væri áhugavert að heyra á hvaða forsendum Frakkinn heldur að hann komist upp með slíkar yfirlýsingar og hvaða lagaboð séu íslenskum lögum æðri í þessum efnum.

Eigum við einhvers staðar þjóðréttarlegar skuldbindingar sem gætu raunverulega leitt til þessarar niðurstöðu[1] eða er maðurinn bara bullari? 

 

[1] Það er ekki hægt að setja fram spurningu sem þessa án þess að geta þess að þjóðréttarlegar skuldbindingar þurfa innleiðingu til þess að borgararnir geti notið þeirra, þannig að á meðan innleiðing hefur ekki átt sér stað þá getur maðurinn ekki staðið á neinu - en forvitnilegt væri að vita hvaða skuldbindingar hann heldur að eigi að leiða að þessari niðurstöðu. 


mbl.is Franskur ökuþór vísar íslenskum lögum á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Advocate General er ekki dómari

Ég veit að það getur verið erfitt að skilja skipulag Evrópusambandsins og er Evrópudómstóllinn þar engin undantekning. En það er nú örlítið of langt gengið að ætla að reyna að koma með þá söguskýringu að yfirdómari segi álit sitt á málinu áður en dómstóllinn sjálfur gerir það.

Hið rétta er að Paolo þessi hefur starfsheitið advocate general, sem þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins þýðir sem aðallögmaður, en ekki yfirdómari.  

Venjan er í evrópurétti að einn af starfandi aðallögmönnum dómstólsins gefur álit sitt (opinion) áður en dómstóllinn kveður upp sinn dóm, og það var það sem hér gerðist. Þess vegna er ekki rétt að segja að Evrópusambandið hafi komist að niðurstöðu, né heldur að Evrópudómstóllinn hafi gert það. Því síður að yfirdómarinn hafi verið að tjá sig. Þetta álit sem nú er fram komið er bara hluti af þeirri venjulegu málsmeðferð sem á sér stað fyrir dómstólnum, þar til opinber niðurstaða er sett fram er best að hafa aðeins hægar um sig.

 


mbl.is Evrópusambandið: Svíar hygla bjórframleiðendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknarhagsmunir vs. tjáningarfrelsi

Já það er athyglisverð niðurstaða héraðsdóms og augljóst að umfjöllun DV um málið á mjög viðkvæmu augnarbliki hefur skaðað mjög rannsóknarhagsmuni í málinu.

Það getur verið erfitt að sitja á upplýsingum sem þessum og er hreinlega spurning hvort hægt sé að gera kröfu til þess. Ef horft er hlutrænt á málið, þá er það að sjálfsögðu fréttnæmt að þetta mikið magn skuli hafa fundist í bíl. En er ekki líka mikilvægt fyrir fjölmiðla að vinna með lögreglu í málum sem þessum?

Er það kannski ekki einmitt mikilvægara að blessaðir mennirnir náist og fái refsingu fyrir ætlað brot, heldur en að færa okkur hinum fréttir um það deginum fyrr eða seinna að 3,8 kíló af kókaíni hafi fundist í bíl í innflutningi.

Ég er almennt mikill útvörður tjáningafrelsis - líka þegar skoðanir manna eru óþægilegar - en ég held að þarna liggi mörkin.


mbl.is Sýknaðir af ákæru vegna innflutnings á 3,8 kg af kókaíni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki gleyma eineltinu

Það er alltaf gott að heyra að ótímabær andlát leiði til vakningar af þessu tagi. Í fréttinni er minnst á að leitað verði til barnaverndaryfirvalda til þess að fá upplýsingar um hvernig fénu verði vel varið. Mér finnst það reyndar augljóst. Ótrúlega hreinskilin minningargrein föðursins sagði það allt:

Hringingin úr skólanum sagði að ekki væri allt sem sýndist. Susie er þjófur! Hún stelur peningum frá foreldrum sínum og öðrum og slær um sig með sælgæti í skólanum. Nú varð að beita hana viðurlögum og aga, bæði í skóla og á heimili. Hún virtist ekki aðlagast í skólanum og grúfði sig yfir bækur, m.a.s. Dostojevskí. Það var ekki fyrr en miklu seinna, langtum seinna, að hún sagði okkur að hún hefði notað sælgætið til að blíðka kvalara sína. Allir brugðust henni, mest ég. Skilningsskortur og hugleysi er synd og syndir feðranna munu koma niður á börnunum.

Úr Miðskólanum kom Susie með kramið hjarta og slíkt hjartasár skilur eftir ör sem aldrei hverfa. Seinna þegar hún Susie bjó til lista yfir þá sem hún ætlaði að fyrirgefa var að lokum eitt nafn eftir á listanum; nafn þeirrar sem hafði sig mest í frammi. (leturbr. mín)

 Það er margítrekuð saga að þeir sem líklegastir eru til þess að ánetjast fíkniefnum eru þeir sem einhverra hluta vegna hafa brotna sjálfsmynd. Í hennar tilviki, eins og hjá svo mörgum öðrum, var það eineltið. Á hverju einasta ári útskrifast nemendur úr grunnskólum landsins með mölvaða sjálfsmynd vegna eineltis skólafélaganna, sumir jafnvel útskrifast ekki því þeir hafa helst úr lestinni.

Ég legg til að byrjað verði þar. 


mbl.is Minningarsjóður um Susie Rut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband