Hjartanlega ósammála

Við erum ekki alltaf sammála ég og Jónas, en ég kippi mér sjaldnast upp við það. Í ljósi færslunnar hér á undan, þá tel ég þó rétt að þegja ekki núna.

Ein af færslum Jónasar frá 17. september:

Persónuverndun glæpamanna
Gallinn við persónuvernd er, að hún er einkum í þágu glæpona. Reiðin út af birtingu skattskrár er upprunnin hjá fólki, sem vill ekki láta koma upp um sig. Gagnrýni á eftirlitsmyndavélar og fingraskanna á rætur sínar í óskum fólks að fela sig fyrir lögum og rétti. Heiðarlegt fólk þarf ekki að óttast skattskrá, eftirlitsmyndir, fingraför, ættir, kennitölu. Gegnsætt samfélag er í þágu venjulegs fólks. Aðrir ramba á jaðri samfélagsins, ofbeldismenn, fíkniefnasalar, skattsvikarar. Þeir vilja, að sem minnst sé um sig vitað. Róttækar hugmyndir um persónuvernd eru fyrst og fremst í þágu glæpamanna.

Ég hef rétt nýlokið við eina ritgerð þar sem ég fjalla um upplýsingasöfnun venjulegra fyrirtækja á persónuupplýsingum venjulegra neytenda - hvorugan hópinn ætla ég glæpamenn. Ekki eru allir sammála mér þar en þó oftar á þann veg að það séu fyrirtækin sem séu glæpamenn, ekki einstaklingarnir.

Eins og ein ritgerð hafi ekki verið nóg, þá er ég með aðra í undirbúningi sem fjallar líka um upplýsingasöfnun venjulegra fyrirtækja á persónuupplýsingum venjulegra neytenda. Sú fyrri fjallaði um örmerkingar (e. Radio Frequency Identification) og nýtingu þeirrar tækni í smásöluverslun en sú síðari fjallar um umferðargögn í fjarskiptarétti (e. data retention), m.a. með tilliti til nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins sem ætlað er að taka gildi nú í haust.

Ég þykist hins vegar vita að það er blaðamaðurinn í Jónasi sem vill ekki persónuverndina, því hún getur takmarkað möguleika blaðamanna til þess að tjá sig um fréttnæma atburði. Þess vegna kippi ég mér ekki mikið upp við það sem hann er að segja, þó ég viti betur. 

Auðvitað á heiðarlegt fólk að óttast óeðlilega söfnun persónuupplýsinga, sérstaklega þegar um er að ræða upplýsingar sem að hluta til eða í heild, geta haft áhrif á fólkið. Söfnun og samkeyrsla gagna á grundvelli kennitölu, fingrafara eða annarra manngreiningaþátta á í eðli sínu að vera eins takmörkuð og unnt er. Það gildir hvort sem söfnunin er á upplýsingum venjulegra neytenda (eins og hjá bönkum, tryggingafélögum eða smávöruverslunum) eða sérstakari hópum (eins og hjá þeim sem misfara með myndbandsspólur).

Ég er hvorki ofbeldismaður, fíkniefnasali né skattsvikari en vil nú samt helst stjórna því sjálf hvaða upplýsingar hinir ýmsu aðilar safna um mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband