Hugmynd að lausn

Ég varð nokkuð hugsi þegar ég las upphaflegu fréttina um nafnbirtingu umsækjanda um nauðasamninga í gærmorgun og fór að velta fyrir mér með hvaða hætti hægt væri að leysa þetta mál. Neðangreind hugmynd er afraksturinn af þeim hugsunum. Hugmyndinni laust niður í morgun og er hún því eðlilega mjög lítið unnin og örugglega hefur ekki séð fyrir alla króka á þessu máli - en hún er kannski nauðsynlegt fyrsta skref hugmyndavinnunnar.

Eins og haft er eftir Rögnu í fréttinni er tilgangur innköllunar í Lögbirtingablaði sá að gefa öllum kröfuhöfum færi á að koma að nauðasamningaborðinu, til þess að verja sína hagsmuni og lágmarka sitt tap. Það sama er gert við gjaldþrot.

Nú er það svo að mjög stór hluti krafna á einstaklinga fara í gegnum innheimtukerfi í umsjón Reiknistofu bankanna og vegna þeirra berast greiðsluseðlar. Þannig eru flestar kröfur til skráðar, annað hvort með einum gjalddaga eða mörgum.

Ég legg til að héraðsdómurum sem berast umsóknir um greiðsluaðlögun, aðra nauðasamninga eða jafnvel gjaldþrot einstaklinga, hafi einhvers konar sýn á þennan gagnagrunn. Þannig væri hægt að kalla fram yfirlit yfir allar kröfur á þann einstakling sem lagt hefur fram umsókn.

Ein leið til þess að útfæra þetta væri að kröfuhafar gætu með einföldum hætti í gegnum sín innheimtukerfi (t.d. í netbönkum) merkt kröfur til birtingar hjá héraðsdómurum og að aðrir kröfuhafar hafi möguleika að stofna beint kröfurnar í gegnum netbanka sína einungis til birtingar í þessum grunni.

Kostirnir við þetta fyrirkomulag:

  • Frumkvæðið að því að verja hagsmuni kröfuhafa væri hjá þeim sjálfum. Þeir þyrftu sjálfir að skrá eða merkja kröfurnar til birtingar hjá héraðsdómurunum.
  • Enginn annar en héraðsdómari sem fær í hendur umsókn um greiðsluaðlögun eða önnur úrræði hefur aðgang að þessum upplýsingum
  • Vitneskja um erfiða skuldastöðu einstaklings væri einungis hjá þeim aðilum sem nauðsynlega þyrftu á henni að halda og því vernda þau æru manna betur en Lögbirtingablaðið gerir.
  • Slíkur grunnur væri nær því að sýna heildarmynd af skuldastöðu umsækjanda sem gerir ákvarðanatöku héraðsdóms auðveldari og frumvarpsgerð umsjónarmannsins einnig. Hægt væri að sjá hvaða kröfur eru komnar á gjalddaga og hverjar ekki ásamt ýmsu öðru.
Gallarnir við þetta fyrirkomulag:
  • Til yrði einn stór skuldaragagnagrunnur, sem innihéldi viðkvæmar persónuupplýsingar. Tryggja þyrfti mjög takmarkaðan aðgang að grunninum og gríðargóða ytri vernd grunnsins. Þess vegna tel ég aðstöðu Reiknistofunnar góða til verksins.
  • Almennt má gera ráð fyrir að kröfuhafar verði duglegri að setja inn kröfur heldur en fella þær niður. Þess vegna tel ég mikilvægt að hafa tengsl á milli innheimtugrunna banka og annarra fjármálafyrirtækja þannig að þegar kröfur eru greiddar þá skili þær upplýsingar sér inn í þennan skuldaragagnagrunn. Þannig verða upplýsingarnar í gagnagrunninum réttastar.

Gagnagrunnurinn yrði síðan eingöngu notaður við gjaldþrot og nauðasamninga, m.a. greiðsluaðlögun. Þannig myndi sá dómari sem hefði fengið umsókn um greiðsluaðlögun finna til upplýsingar um umsækjanda í gagnagrunninum og þau gögn bætast við í gögn málsins sem umsjónarmaður ynni með, verði fallist á tillögu umsækjanda.

Ég legg þessa hugmynd fram í púkk lausna á erfiðum vanda og kalla eftir gagnrýni og ábendingum um það sem betur má fara. Eins eru leiðréttingar á rangfærslum alltaf vel þegnar.


mbl.is Nafnbirting verði endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Leyndarhjúpur auðvldsins hylur allt sem þolir ekki dagsljósið. Þegar um óbreytta borgara er að ræða gilda önnur lögmál.

Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 16:33

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Elfur, hugmyndin er góðra gjalda verð, en á henni er einn hængur.  Samkvæmt gjaldþrotalögum, þá er ætlast til þess að kröfuhafi verji eign sína og honum er ætlað að lýsa kröfu í bú.  Til þess hefur hann takmarkaðan tíma og sinni hann ekki þessari skyldu sinni, þá getur hann fyrirgert rétti sínum.  Með þeirri leið sem þú ert að lýsa, þá má búast við því að fleiri geri kröfu en eftir hinni aðferðinni.  Það er því verið að auka á hugsanlegar skuldir sem tekið er tillit til við greiðsluaðlögunina.  Það er nefnilega þannig, að sé kröfu ekki lýst, þá komi hún ekki til meðferðar í greiðsluaðlögunarferlinu.

Hversu andstyggilegt sem það er, þá er það betra fyrir skuldarann að auglýst sé eftir kröfum í Lögbirtingablaði.   Raunar gæti staða skuldarans mögulega batnað við það að hafa þann háttinn á.  Ef hér koma út Lögbirtingablað með hundruð, ef ekki þúsundum, nafna í nokkra mánuði, þá er ég alveg viss um að ekki hafa allir úthald til að renna í gegnum nafnalistann og bera hann saman við viðskiptavinalistann sinn.

Ég tel þessa hugmynd þína vera göfuga tilraun til að finna lausn á viðkvæmu máli og er ég viss um að margir vildu gjarnan fara þá leið.  Aðrir sjá hag sínum betur borgið með nafnbirtingunni.  Kannski verður bara einfaldlega hægt að bjóða fólki val!

Marinó G. Njálsson, 8.5.2009 kl. 17:32

3 Smámynd: Elfur Logadóttir

Marinó, það er alveg rétt, en fjölgun kröfuhafa í greiðsluaðlögunarsamninginn er í raun betra fyrir skuldarann, því fjöldinn breytir ekki greiðslugetu hans, hann mun alltaf bara geta borgað það sem hann er fær um. Að sama skapi myndu kröfuhafarnir þá allir fá eitthvað og allir þurfa að gefa eftir.

Varðandi greiðsluaðlögunina, þá er hún ekki eins og gjaldþrotainnköllunin, að svarir þú ekki innköllun þá minnkirðu rétt þinn til þess að fá kröfuna greidda. Ég hef amk ekki séð ennþá gögn sem rökstyðja það en sé það raunin þá ét ég hattinn minn í þeim efnum :). Minn skilningur hefur verið sá að þú getur verið með sumar kröfur í greiðsluaðlögun en aðrar lifandi þar fyrir utan. Við gjaldþrot haldast kröfur ekki lifandi utan gjaldþrotaskipta.

Elfur Logadóttir, 8.5.2009 kl. 18:21

4 identicon

Lögbirtingarblaðið er nú eingöngu gefið út á vefnum og þú þarft að vera í áskrift til að geta lesið það. Blaðið er ekki nógu neytendavænt á því formi og ekki svo vinsælt aflestrar nema fyrir einhverja nörda og fagfólk. Blaðasnápar munu trúlega liggja yfir þessu næstu vikurnar. Ég hef því ekki trú á að þetta sé sambærilegt við Fréttablaðið sem dreift er á hvert heimil.  Í stað beinnar nafnbirtingar er hægt að fara smá "detour" og birta einfaldlega bara kennitölu viðkomandi. Ekki heimilisfang. Annars held ég að fyrir þann sem fer þessa leið, þá skipti nafnbirting akkúrat engu máli. Þeir sem eru alltaf að hugsa um álit annarra og halda sig nafla alheimsins verða þá bara að fá sér eina róandi meðan þetta er í birtingu.

Haraldur Aðalbjörn Haraldsson (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 20:56

5 Smámynd: Gísli Tryggvason

Ég held að þú sért á réttri leið Elfur þarna með því að finna leið sem gegnir þeim tilgangi - jafnvel betur en (rafrænt) Lögbirtingablað, sem aðeins fáir lögmenn og aðrir fagmenn lesa - að gæta þeirra hagsmuna kröfuhafa að lýsa kröfum sínum í "þrotabú" neytanda sem sækir um greiðsluaðlögun. Við búum hér sennilega við óvenjulega (og oft líklega of) mikið upplýsingasamfélag og ættum að nýta okkur kosti þess. Þar á meðal er umdeilanleg en rótgróin og hálfopinber Reiknistofa bankanna, sem þú nefnir, og einkarekið kerfi Creditinfo.

Um leið ertu að reyna að nálgast leið sem uppfyllir þetta markmið í þágu kröfuhafa án þess að íþyngja neytandanum, sem sækir um greiðsluaðlögun, um of - en nafnbirting gerir það vissulega svo að ég fagna nýsköpunarhugsun þinni.

Ef hér væri boðið upp á löggjafarfarveg samráðs allra hagsmunaaðila og þeirra sem hafa áhuga, vit og hugmyndir hefði þessi leið þín eða nálgun e.t.v. komist að. Hér er því miður enn við lýði lokað löggjafarferli þar sem lög eru undirbúin í Stjórnarráðinu, oftast í nokkurri leynd (og gjarnan með hraði) - en oft í samstarfi við atvinnurekendasamtök en síður fulltrúa launafólks og neytenda. Ég hef í rúman áratug leitast við að bæta frumvörp með umsögnum en sjaldnast náð árangri - a.m.k. ekki á við yfirlýstan 90% árangur Viðskiptaráðs 2006. Heldur meiri árangri nær maður með því að koma að undirbúningi máls á Stjórnarráðsstigi en betur má ef duga skal - til að slíkar hugmyndir komist að á frumstigi.

Fagna hugmyndinni og vona að hún komist að eftir frekara samráð.

Gísli Tryggvason, 8.5.2009 kl. 22:01

6 Smámynd: Elfur Logadóttir

Við skulum vona Gísli að nýir stjórnarherrar breyti starfsháttum að þessu leyti, því það er augljóst að lagafrumvörp verða betri eftir því sem augun á þau verða fleiri fyrir framlagningu.

Ef helgin fer eins og við er að búast, hef ég kannski einhver sambönd til þess að koma þessu í þróunarfarveg ;)

Elfur Logadóttir, 8.5.2009 kl. 23:50

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæl Elfur, ég ákvað að taka þig á orðinu þegar þú bentir mér á, á síðunni hans Halls Magnússonar, að von væri á bloggfærslu frá þér í dag um hvernig þú teldir að best væri að taka á skuldavanda heimilanna.   Þar segirðu;

"Ég er að skrifa bloggfærslu um efnið sem þú ættir kannski að lesa. Þannig gætirðu áttað þig betur á út á hvað úrræðið gengur og hvernig það getur raunverulega hjálpað - og í raun verið það leiðréttingarúrræði sem þú ert að kalla eftir."

Nú hef ég lesið færsluna þín "Hugmynd að lausn" og athugsemdirnar, sem sumar hverjar eru frá málsmetandi mönnum sem áberandi hafa verið í umræðunni um vanda húsnæðiskulda og heimila.  Þar á meðal er talsmaður neytenda sem er þiggur laun af skattgreiðendum.

Þessi lestur hefur styrkt mig enn frekar í þeirri trú að atvinnusköpun næstu missera felist helst í því að haf "tilsjón" með þeim sem þurfa greiðsluaðlögun.  Þar hljóta lögfræðingar, viðskiptafræðingar, hagfræðingar og þeir sem áður höfðu vinnu við að selja viðbótarlífeyrissparnaðinn að koma sterkir inn.  

Það sem mér er samt efst í huga eftir að hafa sett mig inn í þennan hugarheim eru hin feigu orð Geirs H Haarde, Guð blessi Ísland.

Magnús Sigurðsson, 9.5.2009 kl. 00:59

8 Smámynd: Elfur Logadóttir

Magnús,

ég er reyndar ekki enn búin að birta þá færslu sem ég talaði um þar, enda fjallar sú færsla um greiðsluaðlögunarúrræðin. Ég vildi gefa mér tíma til að skoða betur tilteknar staðreyndir, lagatexta og fylgigögn með honum áður en ég birti færsluna og mér hefur ekki gefist tími til þess að klára það verk.

Athugasemdin mín stendur engu að síður um að umsjónarmaður með greiðsluaðlögun starfar einungis með skuldara á meðan verið er að koma aðlöguninni á, þ.e skuldari leggur inn umsókn um greiðsluaðlögun og umsjónarmaður er tilnefndur til þess að fara yfir málin með honum, ræða við kröfuhafa og leggja fram tillögu að greiðsluaðlögunaráætlun fyrir skuldarann. Þegar aðilar hafa komist að samkomulagi um þetta efni þá er starfi umsjónarmannsins lokið. Næstu árin (allt að fimm ár) mun skuldarinn síðan í samstarfi við sinn viðskiptabanka standa skil á greiðslum til samræmis við þá greiðsluaðlögunaráætlun sem samþykkt var - fullkomlega án aðkomu umsjónarmannsins sem aðstoðaði skuldarann í upphafi.

Færslan "Hugmynd að lausn" fjallar um lausn á þeim vanda sem mikið hefur verið í umræðunni í gær og fyrradag um að innkallanir í Lögbirtingablaði væru niðurlægjandi fyrir skuldarann.

Hins vegar er það alveg rétt hjá þér að einhverjir muni hafa tekjur af því að vera umsjónarmenn. Lögin um greiðsluaðlögun taka hins vegar á því að greiðslur fyrir þetta verk eru ekki háar, 200.000 krónur og greiðast úr ríkissjóði. Gera má ráð fyrir því að hvert greiðsluaðlögunarmál taki fleiri en 10 klukkustundir í vinnu og því er ljóst að þessi greiðsla er lægri en útselt tímakaup lögfræðings og því hefði ég ekki haldið að lögfræðingarnir stykkju á þetta - amk ekki á meðan vertíðin stendur yfir.

Elfur Logadóttir, 9.5.2009 kl. 01:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband