Afsakið meðan ég æli!

...

Það er hægt að verjast og svo er hægt að verjast

Ég ef valið að verja tjáningarfrelsið og almannahagsmunina framyfir trúnað um brjálæðislega framgöngu tiltekins fámenns hóps fyrir hrun.

Þess vegna birti ég yfirlit úr stórlánabók Kaupþings frá 25. september 2008.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lausnarorðið er rafræn skilríki

Þessir atburðir minna okkur á mikilvægi rafrænna skilríkja í nútímaþjóðfélagi.

Með því að Íbúðalánasjóður og bankarnir setji upp ferla sem krefjast þess að allir umsækjendur undirriti umsóknir sínar með fullgildum rafrænum skilríkjum má koma í veg fyrir svindl af þessu tagi.

Fyrirtækjaskrá hefði kæft þetta mál í fæðingu, ef notkun fullgildra rafrænna skilríkja væri liður í þeirra verkferlum.

Með fullgildum rafrænum skilríkjum er átt við skilríki sem uppfylla skilyrði laga um rafrænar undirskriftir. Skilríkjahafar þurfa að mæta í bankaútibú til þess að fá skilríkin afhent þar sem þeir þurfa að leggja fram skilríki gefið út af opinberum aðila (debetkort dugir ekki, einungis vegabréf og ökuskírteini), undirrita skilmála og velja sér öryggisnúmer sem þeir einir þekkja.

Með slík rafræn skilríki í höndunum eru bankar, Íbúðalánasjóður og jafnvel Fyrirtækjaskrá miklu öruggari um að gagnaðilinn í samskiptunum sé sá sem hann segist vera. Þrjótarnir í þessu tilviki hefðu þurft að komast yfir rafræn skilríki konunnar (og meðfylgjandi öryggisnúmer) sem þeir gerðu að lántakanda, ekki bara kennitöluna hennar.


mbl.is Verkferlar endurskoðaðir í kjölfar fjársvika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármögnunin ...

Ég er á því að við eigum að fá eins margar klikkaðar hugmyndir og við getum, fara í (miskostnaðarsamar) fýsileikakannanir og raunverulega íhuga hvort þær eru framkvæmanlegar - í þeirri von að ein þeirra skili jákvæðri niðurstöðu.

Þess vegna segi ég: Bilun, en skoðum þetta samt. Mín fyrsta spurning vegna hugmyndarinnar hlýtur að vera fjármögnunin. Hugmyndin gengur út á að reisa virkjanir sem framleiða að lágmarki 1000 megavöttum meira en við þurfum í þau verkefni sem við viljum nú þegar fara í, reisa verksmiðju sem framleiðir þessa rafmagnsflutningakapla, leggja sæstreng og selja umframrafmagnið. Þetta hlýtur að kosta einhverja milljarða í framkvæmd (án þess að ég hafi hugmynd um hve marga) og því spyr ég:

Hversu marga milljarða kosta þessar framkvæmdir (gróft áætlað), hvernig eigum við að fjármagna framkvæmdirnar og hvernig endurgreiðum við þá fjármögnun? Að auki: Fáum við betri lánskjör á þá fjármögnun en fjármögnun Icesave lántökunnar?

Ef grunnvextirnir (CIR?) eru ca 4,3% (mv. að við fengum 1,2 prósentustiga álag á Icesave lánin) og skuldatryggingaálag Íslands á markaði er 900 punktar (9 prósentur) þá erum við komin í 13% vexti á lántökum. Fáum við lánað hjá öðrum til framkvæmda af þessu tagi á þessum tímum á betri kjörum en það?

Ef hægt er að svara þessari spurningahrinu játandi, þá bíða fleiri spurningar í röðinni en geymum þær í bili.


mbl.is Borgum Icesave með rafmagni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilgreining á hugtakinu kúlulán

Í ljósi þess að hagfræðingurinn stóryrti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kallar Icesave samninginn "stærsta kúlulán Íslandssögunnar" er við hæfi að skoða skilgreiningar á hugtakinu kúlulán:

"Kúlulán (e. bullet loan) eða eingreiðslulán eru yfirleitt langtímalán þar sem engin afborgun á sér stað fyrr en við lok lánstímans. Vextir eru annað hvort greiddir reglulega, t.d. einu sinni á ári, eða endurlánaðir og bætast þá við höfuðstól lánsins." (Wikipedia, 18.06.09, leturbr. mín)

Margoft hefur frá því verið greint að þegar eignir losna eða lausafjármunir verða greiddir í bú Landsbankans í Bretlandi verði þeim ráðstafað til greiðslu á láninu. Gert er ráð fyrir að slíkum greiðslum verði lokið á fyrstu sjö árum lánstímans, sem er samtals 15 ár. Augljóst er að líkur eru á að greitt verði inn á höfuðstól lánsins á fyrri hluta lánstímans þó ekki sé ljóst hvort lánið verði greitt að fullu á þeim tíma og þess vegna er jafn augljóst að hugtakið kúlulán á ekki við hér.

Mér dettur ekki í hug að verja gerninginn, Icesave samninginn eða þá stöðu sem þjóðin er í, en ég fullyrði þó fullum fetum að formaður Framsóknarflokksins er með ósannan áróður sem er á köflum hættulegur íslensku þjóðinni.

Ég get ekki að því gert en mér dettur í hug orðið lýðskrumari í hvert sinn sem ég heyri nafnið Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

 


mbl.is Stærsta kúlulán Íslandssögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið að lækka mánaðarlaunin

Ég get ekki séð betur en að upplýsingar í fréttinni um mánaðarlaun ráðherra séu röng.

Þegar þessar fjárhæðir eru bornar saman við fjárhæðir sem um hefur verið rætt þegar fjallað er um að enginn í opinbera geiranum skuli hafa hærri laun en forsætisráðherra þá er fjallað um laun forsætisráðherra sem undir milljóninni. Ég hvet fréttamenn Morgunblaðsins til þess að kanna málið frekar og athuga hvort launalækkunin sem ákveðin var hjá æðstu stjórn ríkisins hafi ekki lækkað þær fjárhæðir sem um er að ræða.

Sjá margar fréttir um þetta efni.


mbl.is 22 á ráðherralaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Popúlisti

Þegar mál eru kynnt í fjölmiðlum áður en þau eru lögð fram á þingi þá hvæsir stjórnarandstaðan.

Þegar beðið er með að kynna mál í fjölmiðlum þar til þau hafa verið lögð fram á þingi ... þá hvæsir stjórnarandstaðan.

Vill hann ekki móta sér stefnu hvenær á að hvæsa og hvenær ekki - það myndi gera allt mat á framburði hans auðveldari.

 

 

[seinni tíma breyting: það vantaði r í framburðinn]


mbl.is Ekki hvíli leynd yfir samkomulagi stjórnarflokka um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það bannar þeim ekkert að bera bindi

Ég skil ekki hvað menn eru að kvarta. Nú hafa þeir val. Þeir sem vilja geta haldið áfram sinni bindisnotkun, enda ekkert sem hindrar þá í þeirri athöfn. "Reglan" sem var afnumin hindraði hins vegar aðra í að beita sínu frjálsa vali.

 


mbl.is Þingmenn læra góða siði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo er bara að fara eftir þeim!

Ég á eftir að lesa siðareglurnar, en gaman væri að vita hvort þær tækju á öllu því sem virðist hafa skort á að tæklað væri undanfarin 19 ár.

Ekki seinna vænna að fegra ímyndina, það er bara eitt ár í sveitarstjórnarkosningar í Kópavogi.


mbl.is Kópavogsbær setur sér siðareglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmynd að lausn

Ég varð nokkuð hugsi þegar ég las upphaflegu fréttina um nafnbirtingu umsækjanda um nauðasamninga í gærmorgun og fór að velta fyrir mér með hvaða hætti hægt væri að leysa þetta mál. Neðangreind hugmynd er afraksturinn af þeim hugsunum. Hugmyndinni laust niður í morgun og er hún því eðlilega mjög lítið unnin og örugglega hefur ekki séð fyrir alla króka á þessu máli - en hún er kannski nauðsynlegt fyrsta skref hugmyndavinnunnar.

Eins og haft er eftir Rögnu í fréttinni er tilgangur innköllunar í Lögbirtingablaði sá að gefa öllum kröfuhöfum færi á að koma að nauðasamningaborðinu, til þess að verja sína hagsmuni og lágmarka sitt tap. Það sama er gert við gjaldþrot.

Nú er það svo að mjög stór hluti krafna á einstaklinga fara í gegnum innheimtukerfi í umsjón Reiknistofu bankanna og vegna þeirra berast greiðsluseðlar. Þannig eru flestar kröfur til skráðar, annað hvort með einum gjalddaga eða mörgum.

Ég legg til að héraðsdómurum sem berast umsóknir um greiðsluaðlögun, aðra nauðasamninga eða jafnvel gjaldþrot einstaklinga, hafi einhvers konar sýn á þennan gagnagrunn. Þannig væri hægt að kalla fram yfirlit yfir allar kröfur á þann einstakling sem lagt hefur fram umsókn.

Ein leið til þess að útfæra þetta væri að kröfuhafar gætu með einföldum hætti í gegnum sín innheimtukerfi (t.d. í netbönkum) merkt kröfur til birtingar hjá héraðsdómurum og að aðrir kröfuhafar hafi möguleika að stofna beint kröfurnar í gegnum netbanka sína einungis til birtingar í þessum grunni.

Kostirnir við þetta fyrirkomulag:

  • Frumkvæðið að því að verja hagsmuni kröfuhafa væri hjá þeim sjálfum. Þeir þyrftu sjálfir að skrá eða merkja kröfurnar til birtingar hjá héraðsdómurunum.
  • Enginn annar en héraðsdómari sem fær í hendur umsókn um greiðsluaðlögun eða önnur úrræði hefur aðgang að þessum upplýsingum
  • Vitneskja um erfiða skuldastöðu einstaklings væri einungis hjá þeim aðilum sem nauðsynlega þyrftu á henni að halda og því vernda þau æru manna betur en Lögbirtingablaðið gerir.
  • Slíkur grunnur væri nær því að sýna heildarmynd af skuldastöðu umsækjanda sem gerir ákvarðanatöku héraðsdóms auðveldari og frumvarpsgerð umsjónarmannsins einnig. Hægt væri að sjá hvaða kröfur eru komnar á gjalddaga og hverjar ekki ásamt ýmsu öðru.
Gallarnir við þetta fyrirkomulag:
  • Til yrði einn stór skuldaragagnagrunnur, sem innihéldi viðkvæmar persónuupplýsingar. Tryggja þyrfti mjög takmarkaðan aðgang að grunninum og gríðargóða ytri vernd grunnsins. Þess vegna tel ég aðstöðu Reiknistofunnar góða til verksins.
  • Almennt má gera ráð fyrir að kröfuhafar verði duglegri að setja inn kröfur heldur en fella þær niður. Þess vegna tel ég mikilvægt að hafa tengsl á milli innheimtugrunna banka og annarra fjármálafyrirtækja þannig að þegar kröfur eru greiddar þá skili þær upplýsingar sér inn í þennan skuldaragagnagrunn. Þannig verða upplýsingarnar í gagnagrunninum réttastar.

Gagnagrunnurinn yrði síðan eingöngu notaður við gjaldþrot og nauðasamninga, m.a. greiðsluaðlögun. Þannig myndi sá dómari sem hefði fengið umsókn um greiðsluaðlögun finna til upplýsingar um umsækjanda í gagnagrunninum og þau gögn bætast við í gögn málsins sem umsjónarmaður ynni með, verði fallist á tillögu umsækjanda.

Ég legg þessa hugmynd fram í púkk lausna á erfiðum vanda og kalla eftir gagnrýni og ábendingum um það sem betur má fara. Eins eru leiðréttingar á rangfærslum alltaf vel þegnar.


mbl.is Nafnbirting verði endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband