Lögfræðingurinn í mér gapir meðan feministinn glottir

Ég er eiginlega alveg orðlaus.

Lögfræðingurinn í mér gapir.
Mannréttindafulltrúinn í mér er klofinn í herðar niður.
Jafnréttissinninn í mér er órólegur.
Feministinn í mér glottir.

Já það er bannað að framleiða klám á Íslandi.
En ef ég reiddist þegar fólki í gulum stuttermabolum var meinað að ganga frjáls um landið mitt, hvernig í ósköpunum get ég þá réttlætt það að meina frjálsu og fullorðnu fólki með öðruvísi kynhegðun en ég, að ganga um sama land?

Eins og margir hafa sagt á undan mér: Það reynir fyrst á gildi tjáningafrelsisákvæðis stjórnarskrár þegar kemur að því að taka afstöðu til óæskilegra skoðana.

Já klám er niðurlægjandi fyrir konur.
Ég veit líka að margar konur og mörg börn eru seld mansali til þess að fjármagna ákveðnar kenndir oft sjúkra einstaklinga.

Ég fordæmi iðnaðinn. Ég fordæmi að einhver skuli gera sér niðurlægingu í kynlífi að féþúfu. Auk þess sem ég skil ekki hvað það er við klám sem gerir það spennandi afþreyingu.

Ég vil samt ekki að fólki í gulum stuttermabolum sé úthýst af landinu.
Og þá get ég ekki gert kröfu um að fólki í rauðum stuttermabolum sé úthýst. Jafnvel þó líferni þeirra sé mér ekki að skapi.

Eða hvað?

Birtist fyrst á vefsíðunni minni


mbl.is Hætt við klámráðstefnu hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú hefur Síminn sjálfur dreift klámi í gegnum heimasíðu sína www.hugi.is/kynlif til lengri tíma.

Þar fá börnin okkar aðgang að klámi og öðrum viðbjóð... 

 Af hverju setur enginn út á það?

HÞS (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 19:37

2 identicon

Þetta finnst mér Radison Sas Hótel Sögu og þjóðinni til háborinnar skammar.  Ég efast um að þetta fólk hefði hegðað sér eitthvað verr en aðrir ráðstefnugestir, sem eru kannski í "fínni" starfstéttum.

H (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 19:38

3 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Jamm. Mér virðist á skrifum núna í dag sem laganemar hafi tekið sig saman um fordæmingu á almennum viðbrögðum við margumræddri klámráðstefnu. Viðbrögð mín við viðbrögðum þeirra hafa verið þessi: Þetta eru bara laganemar, ekki einu sinni lögfræðingar ennþá, og þeir eiga eftir að læra sitthvað í réttarfari (og öðru) sem ekki stendur í tilteknum tilvísanlegum lagagreinum ...

Hlynur Þór Magnússon, 22.2.2007 kl. 19:43

4 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Er verið að banna viðkomandi einstaklingum að koma til landsins?

Nei, - þeir fá bara ekki að gista á Radisson SAS.  Þannig að ég held að lögfræðingurinn og feministinn ættu að geta sæst á þessa lausn.  Ef þeir vilja endilega striplast á skíðum, þá er örugglega hægt að finna einhverja lagagrein sem bannar það, - en ef fólk brýtur engin lög hér og er ekki eftirlýst fyrir lagabrot annars staðar þá ætti ekkert að stoppa för þeirra til landsins og dvöl hérlendis.

Eða hvað? 

Eygló Þóra Harðardóttir, 22.2.2007 kl. 19:44

5 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Ég er líka búin að vera  í svipuðum pælingum í þessu máli.

Mér fannst hins vegar athyglisvert að samtök ferðaþjónustu hafa ályktað ef mig minnir rétt, þar sem þeir hvöttu til að hvalveiðum yrði hætt. Vegna ímyndar landsins.

Þá velti ég því fyrir mér hvers vegna hvalir ættu fleiri vini en fólk. 

Þóra Guðmundsdóttir, 22.2.2007 kl. 19:45

6 Smámynd: Elfur Logadóttir

Hlynur, ég er fullviss um að laganemar hafa ekki tekið sig saman um neitt, en þar sem þeir eiga menntunina sameiginlega, þá er ekkert óeðlilegt við að þeir komist margir hverjir að sambærilegri niðurstöðu. Viðbrögð þín við viðbrögðum þeirra eru hins vegar þess eðlis að ég sé ekki ástæðu til þess að svara þeim. Höldum okkur við málefnalega umræðu.

Eygló, það er nokkur einföldun að reyna þá rökfærslu að vegna þess að hótelið var fyrst til þess að synja þeim um þjónustu að þá hafi þeim ekki verið meinað að koma til landsins. Öll spjót beindust í þá átt að þeim yrði ekki gert líft tækju þau ákvörðun um að koma.

Ekki misskilja mig, mér finnst fínt að kaupstefnan/ráðstefnan/skemmtunin eða hvað þetta var nú í raun, að þau séu annars staðar. En ég get ekki fallist á það að við handveljum inní landið. 

Ekki þegar það kemur að Falun Gong, ekki þegar það kemur að innflytjendum í leit að betra lífi og ekki heldur þegar það kemur að fólki með óæskilega (en löglega) kynhegðun. Brjóti fólk íslensk lög á íslenskri grundu ... þá á að sjálfsögðu að taka á því - þegar þar að kemur.

Elfur Logadóttir, 22.2.2007 kl. 20:03

7 identicon

Ég sem hélt að þjóðin væri svo frjálslynd og nútímaleg, greinilega margfalt íhaldssamari en ég hélt. Oft gerum við grín að öfgatrú/öfgasiðferði sem finnst í suðurríkjum Bna, en erum svo sjálf ekkert skárri. Þetta viðbjóðslega ástand virðist tengjast þeirri forsjárhyggju og bannæði sem hefur farið vaxandi seinustu árin. Það eru tugir þúsunda fasista hér á landi sem sjá ekkert að því að þröngva eigin siðferði yfir aðra,

Svo finnst mér furðulegt að engir pólitíkusar þori að taka afstöðu með ráðstefnunni (eða einfaldlega afstöðu með eðlilegu ferðafrelsi fólks). Það eru örugglega einhverjir þingmenn sem hafa leynilega gaman af klámi, hlutföllin eru allavega slík að það er mjög ólíklegt að þeir séu allir á móti því. En hræðslan við pólitíska rétthugsun er mikil, sérstaklega rétt fyrir kosningar. 

Geiri (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 20:16

8 Smámynd: Bergþóra Jónsdóttir

Sæl Elfur og takk fyrir vangaveltur sem ég held að margir sjálfa sig í.

Þú sagðir:

"hvernig í ósköpunum get ég þá réttlætt það að meina frjálsu og fullorðnu fólki með öðruvísi kynhegðun en ég, að ganga um sama land?"

Þetta snýst engan vegin um "öðru vísi kynhegðun".  Femínistar eru sannarlega fylgjandi kynfrelsi fólks og kvenna ekkert síður en karla.  Hver og einn á að geta stundað það kynlíf sem hann kýs og verið þeirrar kynhegðunar sem hann langar, svo framarlega sem það er innan ramma laganna.  Þetta eru auðvitað grundvallarmannréttindi. 

Þegar hins vegar peningar eru komnir í spilið og farið að höndla með kynlíf, þá á það fátt skylt við minn skilning á frjálsu kynlífi og kynfrelsi.   Þegar kynlíf er orðið að viðskiptavöru, er einmitt hætt við því að þeir sem minna mega sín af einhverjum ástæðum láti til leiðast og taki þátt í leiknum - af allt öðrum hvötum en frjálsum vilja.  Með því að kynlíf verður að viðskiptum, skapast líka hættan á því að einhverjir sjái sér hag í því að koma slíkum viðskiptum um kring, hvað sem það kostar, fyrir gróðavonina eina.  Þá er orðið stutt í allar svörtu hliðar þeirra viðskipta - t.d. mansal.  Auðvitað er þetta ekki alveg svona einfalt - alltaf, oft þó, en kjarni málsins er sá að kynfrelsi telst til réttinda, meðan klám gerir það ekki, í okkar landi að minnsta kosti.  Þetta er það sem margir af þeim gaurum sem eru að tjá sig á bloggsíðunum hér geta með engu móti skilið. 

Það hafði komið fram í fréttum að fólkið sem hingað ætlaði að koma hugðist taka upp klámefni hér, og leikarar í því voru nafngreindir.  Það eitt hefði átt að duga til að vísa fólkinu í burtu. 

Bergþóra Jónsdóttir, 23.2.2007 kl. 06:19

9 Smámynd: Elfur Logadóttir

Sæl Bergþóra,

vandinn minn felst einmitt í þessu. Ég hef alltaf talið mig vera feminista og ég er á móti því að menn geri sér kynhegðun einstaklinga að féþúfu, sérstaklega þar sem slíkt getur leitt af sér misnotkun og þaðanaf verra.

En ég er líka lögfræðingur og ætli ég geti ekki staðfest það að lögfræðingurinn hafi unnið þessa rimmu, því ég vil búa í réttarríki. Ég vil búa í ríki þar sem enginn hefur heimild til þess að handvelja þá sem koma inn í landið, hvorki til heimsóknar né til langdvalar. Ég vil búa í ríki þar sem frumskilyrði frelsissviptingar er lögbrot. Ég vil búa í ríki þar sem ríkar eru forvarnirnar en engar handtökurnar fyrr en að broti gengnu.

Ég vil búa í ríki þar innflytjendur eru velkomnir, þar sem Falun Gong getur mótmælt, þar sem andstæðingar virkjana geta mótmælt, þar sem Greanpeace geta mótmælt og þar sem feministar geta mótmælt. Þar sem pláss er fyrir alla, óháð kynferði, kynkvötum, kynstofnum, kynþætti eða kynhegðun.

Ég geri mér grein fyrir því að til þess að ég geti búið í þessu ríki, þá verði ég að sætta mig við að suma brestur siðferðisvitund. En á meðan þeir brjóta ekki lög og eru ekki eftirlýstir vegna lögbrota annars staðar, þá á ég ekki rétt á því að ætlast til þess að þeir séu annars staðar. Þetta gildir hvort sem siðferðisvitundina brestur vegna hagnaðarvonar eða annarra hvata og hvort sem menn hagnast á kaupum á ríkisfyrirtækjum eða framleiðslu kynlífs.

Elfur Logadóttir, 23.2.2007 kl. 11:11

10 Smámynd: Pétur Henry Petersen

Þú ert rödd skynseminnar, ólíkt ó svo mörgum

Svo náttúrúlega fyndið þegar framafólk í mótmælum (t.d. réttilega gegn mismunum) sé á móti mótmælum annara og kalli það þvaður og rökleysu.  

Pétur Henry Petersen, 23.2.2007 kl. 12:34

11 Smámynd: Elfur Logadóttir

Sæl Elísabet,

ég hef ekki minnst einu orði á að landslög hafi verið brotin í þessu tilviki. Ég er heldur ekki viss um að Bændasamtökin hafi talið sig vera að tapa á viðskiptunum til lengri tíma. Þeir höfnuðu viðskiptunum að sögn vegna pólitísks þrýstings.

Ekki líta á mig sem óvininn, því það er ég svo sannanlega ekki. Eins og upphaflegi pistill minn ber með sér er ég margklofin í þessu máli. Ég styð fyllilega baráttuna gegn klámi og klámvæðingu og ég hafði minni en engan áhuga á að fólk hittist á Íslandi undir formerkjum þess.

Ég hræðist hins vegar niðurstöðuna, eða öllu heldur afleiðingar niðurstöðunnar og að sumu leyti rökstuðninginn fyrir upphaflegu kröfunni um að hleypa þessu fólki ekki inn. Ég hræðist það að vegna þess fordæmis sem það gefur fyrir framtíðina. Kröfurnar í þetta skiptið voru rökstuddar (hjá sumum) með aðgerðum gegn Falun Gong. Ég hræðist slíkan rökstuðning og ég hræðist slíkar kröfur. Ég var (og er) ein af þeim sem vildi með engu móti að því fólki yrði haldið frá landinu. Alveg eins og ég vil ekki að innflytjendum sé haldið frá landinu, eða í raun nokkrum öðrum. 

Þetta er stór siðferðisleg þversögn þar sem ég vil hvorki atburðinn né afleiðingar þess að hafna honum. 

Elfur Logadóttir, 23.2.2007 kl. 16:25

12 Smámynd: Vera

Sæl Elfur, gaman að "sjá" þig hér ;-) Fyrirsögnin þín segir eiginlega allt sem segja þarf - finnst hún alveg frábær! 

Kolbrún: Auðvitað er þetta siðferðisleg spurning, en ef það er rétt, eins og vitnað er í í fréttum, að Bændasamtökin hafi ákveðið að synja þessum hóp vegna þrýstings frá stjórnvöldum - þá hefur málið einnig mjög mikið með lögfræði að gera. 

Ísland hefur skuldbundið sig að landsrétti og þjóðarétti til að virða mannréttindi, s.s. tjáningarfrelsi, funda- og félagafrelsi og síðast en ekki síst, bann við mismunun.  Ég get rétt ímyndað mér lætin ef vísa ætti frá hópi samkynhneigðra, feminista, eða hópi prjónakvenna.  

Vera, 23.2.2007 kl. 19:41

13 identicon

Ég hef engar áhyggjur af fólkinu í gulu stuttermabolunum í þessu samhengi. Það var engum vísað úr landi og engum lögum beitt heldur. Það eina sem gerðist var að fólk sendi skilaboð til klámiðnaðarins, skilaboð sem Saga kaus að telja mikilvæg og hafnaði þess vegna viðskiptunum. Hópnum var aldrei bannað að koma. Það er það sem var svo frábært við þetta og þess vegna glottir femínistinn í mér enn meira.

Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 15:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband