Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Það þarf meira til

Ef ég hef fundið eitthvað á lestri og samskiptum á netinu undanfarnar vikur, þá er það hversu mikið vantar uppá að réttar upplýsingar séu á floti. Flökkusögurnar eru mýmargar og hafa fengið að grassera allt of lengi.

Ég styð mjög þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar að styrkja ráðgjafastofuna og eyða biðlistum hennar með því að fólk geti gengið inn af götunni í leit að aðstoð. Hins vegar verður ríkisstjórnin að grípa til frekari og stórtækari úrræða til þess að tryggja að réttar upplýsingar liggja frammi.

Þjóðin hefur margoft látið það í ljós að einungis hluti hennar sækir réttar upplýsingar, aðrir virðast trúa því sem þeim er sagt. Þess vegna verður að segja fólki sannleikann og vinna gegn afli flökkusaganna.

Þar dugir ekkert minna en kynningarátak. Með kynningarátaki væri hægt að koma í veg fyrir beint og óbeint tjón einstaklinga, ríkisins og þjóðarinnar í heild. Með réttum skilaboðum er hægt að stuðla að réttum ákvörðunum fólksins (réttum fyrir það ekki ríkið). Ég hef fulla trú á að slíkar aðgerðir, þó þær myndu kostar einhverjar milljónir króna, jafnvel tug eða tvo, myndu vera gríðarlega kostnaðarsparandi fyrir þjóðarbúið þegar til lengri tíma er litið.

Hefur einhver reiknað hvað vanskil kosta hvern einstakling? en ríkið?


mbl.is Starfsemi Ráðgjafarstofu efld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann fór daglega í sturtu, þvílíkur dóni!

Afsakið ég get ekki tekið þessa frétt alvarlega.

Það er íbúð á neðstu hæðinni og salernis- og sturtuaðstaða í sameign sem að sögn nýtist engum nema þeim sem býr á neðstu hæðinni. Eigendur neita að gera upp aðstöðuna en kvarta undan fúkkalykt á sama tíma.

Það mætti segja mér að ef aðstaðan yrði gerð upp myndi fúkkalyktin hverfa!


mbl.is Klósettferðir angra íbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sáu þeir fram á hremmingar strax í kosningunum 2007?

Ég hegg eftir orðavali Geirs Haarde þegar hann rökstyður val sitt á samstarfsflokki eftir kosningar árið 2007:

Það voru því fyrst og fremst málefnin sem réðu því að við ákváðum að ganga til samstarfs við Samfylkinguna, auk þess sem það var mikill kostur að geta treyst á stóran þingmeirihluta í þeim hremmingum, sem við sáum þá fram á, þótt engan hafi grunað að þær yrðu að þeim hamförum sem síðar varð raunin," sagði Geir. 

Þetta frá flokkinum sem byggði kosningabaráttuna sína á áframhaldandi efnahagslegum stöðugleika.

Orðabókin skilgreinir hugtakið hremming sem slæma uppákomu, lenda í vandræðum, ógöngum. Í mínum huga eru þetta miklu sterkari orð en "mjúka lendingin" sem Geir boðaði ítrekað fyrir og eftir kosningar.

Nýir tímar á traustum grunni

 

"Sjálfstæðismenn ganga nú til kosninga stoltir af verkum sínum og fullir tilhlökkunar til að takast á við áskoranir nýrra tíma. Traustur grunnur hefur verið lagður. Efnahagslífið hefur aldrei verið öflugra. Skattar hafa verið lækkaðir, staða ríkisfjármála er sterkari en nokkru sinni og velferðarkerfið hefur verið styrkt í sessi.

Mörg spennandi verkefni eru framundan og viljum við vinna áfram fyrir landsmenn á þeim grunni sem lagður hefur verið." (Af kosningasíðu Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar 2007).

 

 


mbl.is Íhugaði vel samstarf við VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frá því klukkan fimm í dag!

Þingfundur hófst kl. 15.00. Byrjað var að gera athugasemdir við störf þingsins og síðan tók við óundirbúinn fyrirspurnartími til ráðherra. Því næst eða kl. rúmlega fjögur hófst utandagskrárumræða sem átti að hefjast kl. 15.30 þar sem rædd var endurreisn efnahagslífsins.

Að því loknu steig Björgvin G. Sigurðsson í pontu og bar fram breytingatillögu frá efnahags- og skattanefnd á frumvarp sem nefndin afgreiddi út úr nefnd til þriðju umræðu. Frumvarpið stóra var séreignalífeyrissparnaður og möguleikar fólks á að losa það fé upp að vissu marki vegna aðstæðna á markaði.

Þetta var kl. rétt rúmlega fimm í dag. Síðan hafa sjálfstæðismennirnir tínst í pontu einn af öðrum og þegar þetta er skrifað, kl. 23.12 eru þeir enn að þrefa um það að þeir vilji fá atvinnumálin á dagskrá. Kl. 22.51 stóð Sigurður Kári í pontu og harðneitaði því að um málþóf væri að ræða, Sjálfstæðismenn vildu bara tryggja að séreignarlífeyrissparnaðarmálið fengi góða umræðu!

Ef þeir hefðu bara tekið umræðuna á málefnalegum grundvelli, þá væru atvinnumálin löngu komin á dagskrá. Lykilatriðið er nefnilega það að þeir vilja ekki stjórnarskrárumræðuna og gera allt - og þá meina ég allt - til þess að forðast hana.

Ég velti því fyrir mér hvort Sjálfstæðismenn séu sáttir við breytingarnar sem þeir gerðu á þingskaparlögum um daginn. ... annars hefðum við mögulega fengið fleiri ræður með pissupásu, til þess að tryggja að við ræðum atvinnumál!


mbl.is Saka sjálfstæðismenn um málþóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við hverju bjóst maðurinn?

Ég skil ekki af hverju þetta er yfirhöfuð frétt, að Bjarna þyki lánasafn bankanna lélegt. Það liggur fyrir að bankarnir offjárfestu í lánveitingum, bæði til fyrirtækja og einstaklinga og lán standa á mörgum stöðum langt umfram eignir. Þess vegna er heldur ekki hægt að "endurnýta" afskriftirnar á kaupum viðskiptabankanna eins og Framsókn hefur mælt með.

Hversu mikið ætli t.d. N1, viðskiptablokkin hans Bjarna sem hann yfirgaf í lok síðasta árs, skuldi viðskiptabönkunum?


mbl.is Lánasafn nýju bankanna afar lélegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins einu máli? Alþingi.is segir 5 lög samþykkt eftir 1. febrúar.

Enn eru menn með óábyrgan fréttaflutning hjá Morgunblaðinu.

Þegar skoðuð er forsíða Alþingisvefsins sést það augljóslega að fimm mál hafa verið afgreidd sem lög eftir 1. febrúar 2009, þegar ný ríkisstjórn tók við.

 

Hvenær ætli menn fari að sinna einföldustu rannsóknarskyldu áður en fréttirnar eru skrifaðar?


mbl.is Sigmundi Davíð boðin sáttahönd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það ÞARF ekki að rjúfa þing 12. mars

Enn eru blaðamenn mbl.is ónákvæmir í orðalagi sínu við ritun frétta. Í viðhengdri frétt segir orðrétt: "Rjúfa þarf þing 12. mars miðað við að kjördagur verði 25. apríl." (leturbr. mín).

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir orðrétt í 24. grein: "Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, [áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið]" (leturbr. mín).

Það er sem sagt ekki nauðsynlegt að rjúfa þing 12. mars og í raun er 12. mars nær því að vera fyrsta mögulega dagsetning þar sem heimilt er að rjúfa þing ætli menn að ganga til kosninga 25. apríl. Lykilatriðið í stjórnarskrárákvæðinu snýr nefnilega að þeim tíma sem líður frá þvi þing er rofið þar til kosningar fara fram. Í þeim skilningi að ríkisstjórninni eru settar skorður um hversu lengi hún megi starfa eftir að þing hefur verið rofið, ekki þannig að líða þurfi nákvæmlega 45 dagar frá þingrofi til kosninga.


mbl.is Hægt að halda áfram þingstörfum eftir þingrof
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í dag??

Ég hef ekki fengið ein einustu skilaboð frá verkalýðsfélaginu?

Eiga kosningarnar ekki að fara fram alla næstu viku og m.a.s. vera í gangi fram til 11. mars?

Ég ætla rétt að vona það, ég ætla mér að taka þátt í þessari kosningu.


mbl.is Fyrstu allsherjarkosningar VR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr 100% í 80% nefndarmanna

Rétt er að vekja athygli á því að með þeim breytingum sem verið er að gera á skipan peningamála þá minnka völd forsætisráðherra frá því sem hingað til hefur verið.

Samkvæmt núgildandi ákvæðum í lögum um Seðlabanka Íslands er það bankastjórn Seðlabankans sem tekur ákvarðanir um beitingu peningastefnunnar innan þess sem lögin heimila. Peningastefnan er í dag ákvörðuð af alþingi og þar af leiðandi af pólitískum meirihluta hverju sinni.

Forsætisráðherra skipar sem sagt 100% af núverandi "peningastefnunefnd." Eftir breytingar mun hún vissulega skipa fjóra af fimm aðilum en með þeim takmarkandi nýjungum að þeir hafi faglega hæfni skv. því sem nánar greinir í frumvarpinu. Fjórir af fimm eru 80% og því er ljóst að völd forsætisráðherra til skipunar í peningastefnunefnd eru að minnka en ekki aukast.


mbl.is Seðlabanki Jóhönnu Sigurðardóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki með öllu rétt, en það má líka byrja að telja fyrr ...

Það er alveg rétt að talning verður flóknari en áður en alls ekki óyfirstíganleg og ætti ekki að þurfa að lengja kosninganóttina mikið.

Það mikilvæga er að áfram er valinn einn flokkur og þess vegna er fyrsta flokkun fullkomnlega sambærileg því sem áður hefur verið. Breytingar, röðun eða annað, verða eingöngu heimilaðar innan þess lista sem valið er að kjósa. Jafnframt virðist það liggja fyrir að ekki muni allir flokkar kjósa þessa leið, að heimila kjósendum uppröðun frambjóðenda. Þess vegna mun niðurstaða kosninganna hvað varðar fjölda þingmanna ekki liggja fyrir mikið síðar en áður.

Tvennt kemur hins vegar til sem mun flækja talninguna:

  1. Vafaatkvæðum mun fjölga til muna og því gæti verið mikilvægt að skilgreina miklum mun betur hvernig farið verður með vafaatriði sem koma til vegna þessara breytinga. Jafnframt gæti mögulega verið skynsamlegt að kjörstjórn og umboðsmenn fari yfir vafaatkvæði í fleiri en einu holli. Jafnframt mætti flokka þessi atkvæði strax eftir tegund vafa og líklegrar niðurstöðu hópsins, sem þá þyrfti mögulega ekki að fara jafn vandlega yfir hvert einasta vafaatriði, ef mörg eru af samkynja vafa.
  2. Röðun á lista þeirra sem velja að heimila kjósendum uppröðun frambjóðenda mun vissulega taka lengri tíma. Þess vegna er mikilvægt að byrja að telja fyrr, því talning fyrstu atkvæðanna tekur ávallt lengri tíma en talning þeirra síðustu, sérstaklega þegar um flækjustig af þessu tagi er að ræða. Ef talning byrjar fyrr, atkvæðakössum er skipt út oftar, talningarmönnum er fjölgað og verklagið er skipulagt með markvissum hætti þá sé ég ekki að tafir eigi að verða svo miklar.

Þetta snýst sem sagt fyrst og fremst um markviss vinnubrögð og góðan undirbúning og þá verður talningahlutinn ekki óyfirstíganlegur.

Mikilvægust er hins vegar skilmerkileg reglusetning og fræðsla til almennings til þess að tryggja að vafaatkvæðin verði sem fæst og að afgreiðsla þeirra gangi sem hraðast.


mbl.is „Kosninganóttin“ gæti orðið löng og ströng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband