16.10.2007 | 17:52
Og meira til maka manna sem stýrðu ríkinu
Merkilegt að enginn skuli taka það upp að stjórnarformaður eins þeirra fyrirtækja sem stóran hlut á í sameinuðu REI/GGE er maki fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Mér dettur ekki í hug að réttlæta að þeir framsóknarmenn sem kenndir hafa verið við vafasama afhendingu fjármuna íslenska ríkisins séu inni í þessum hóp - enda ekki mitt að réttlæta það - en mér finnst hálf hjákátlegt að hlusta á sjálfstæðismenn, af öllum mönnum, kvarta undan því að undir þeirra stjórn hafi framsóknarmenn fengið milljarða þegar ljóst er að sjálfstæðismenn virðast fá fleiri milljarða.
50% af 2,23% eignahlut er 1,115% [1]
18,02% af 27,02% eignahlut er 4,869% [2]
[1] Landvar og Þeta eiga 50% hlut í VGK-Invest sem á 2,23% eignahlut í hinu sameinaða félagi mv. þær upplýsingar sem birtar voru í 24 stundum í morgun. Framreiknað þýðir það að Landvar og Þeta eiga 1,115% í hinu sameinaða félagi.
[2] Gnúpur á 18,02% eignahlut í FL Group sem á 27,02% eignahlut í hinu sameinaða félagi mv. þær upplýsingar sem birtar voru í 24 stundum í morgun. Framreiknað þýðir það að Gnúpur á 4,869% í hinu sameinaða félagi eða rúmlega fjórum sinnum meira en Landvar og Þeta til samans. Stjórnarformaður Gnúps er Kristinn Björnsson fv. forstjóri Skeljungs og eiginmaður fv. dómsmálaráðherra Sólveigar Pétursdóttur.
Sjá mynd af korti sem 24 stundir birtu í morgun:
http://eyjan.is/files/2007/10/reikort.png
Gísli Marteinn: Milljarðar renna til manna sem stýrðu Framsóknarflokknum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Tölvur og tækni | Facebook
Athugasemdir
Flott að fá þessar upplýsingar- það fer nú varla að rúmast í einu höfði allt sem maður þarf að vita um málið! Þá kemur talvan að góðum notum!
María Kristjánsdóttir, 16.10.2007 kl. 18:25
Og ef þú horfir betur á myndina, þá kemur í ljós að tvö hollensk eignarhaldsfélög FL Group eiga rétt um 30% í Glitni sem aftur á 6,25% í GGE, þannig að eignarhlutur Gnúps í GGE er ríflega 5,2%. Svo veit ég ekkert hvað Kristinn á mikið í Gnúpi. Mér finnst það leiðinlegt að sjálfstæðismenn skuli ennþá reyna að klína spillingarstimpli á Björn Inga. Kunna menn ekki að taka tapi?
Marinó G. Njálsson, 16.10.2007 kl. 18:39
Verð að bæta hér við. Var að hlusta á fréttir, þar sem Gísli Marteinn varð öllum stærðfræðikennurum sínum til skammar. Hann hélt því fram að Björn Ingi Hrafnsson hefði fært frammámönnum í Framsóknarflokknum fleiri milljarða á silfurfati. Ekki milljónir heldur milljarða endurtók hann. Til að Landvar og Þeta hefði fengið fleiri milljarða (sem ég skilgreini sem a.m.k. 3 milljarða) þarf verðmæti REI að vera 280 milljarðar hið minnsta. Svo er rétt að nefna að hlutur Gnúps væri þá kominn í hátt í 15 milljarða.
Marinó G. Njálsson, 16.10.2007 kl. 19:18
Á hann kannski ókláraða stærðfræðiáfanga einhvers staðar?
Jóhann (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 19:40
Marínó ætti að hlusta betur á Björn Inga Hrafnsson, sem taldi framtíðarvirðið sennilega nærri 400 milljörðum króna.
Andrés Magnússon, 16.10.2007 kl. 21:21
En Andrés, það breytir engu í raun, er það? Það þýðir bara að Gnúpur fær fjórum til fimm sinnum hærri fjárhæð heldur en Gísli Marteinn ætlar þeim framsóknarmönnum að fá.
Það er gott mál ef fyrirtækið dafnar og þar sem ég er fyrir utan allar fjárfestinga- og flestar stjórnmálablokkir, þá breytir það engu fyrir mig hvaða einstaklingur það er sem græðir á pakkanum. Efni þessarar færslu snerist fyrst og fremst um þau öfugmæli sjálfstæðismanna að ætla framsóknarmönnum spillingu, þegar ljóst er að jafn vel tengdir sjálfstæðismenn virðast vera að fá miklu meira út úr dæminu.
Ef annað er óeðlilegt, þá er hitt það líka - þitt er valið.
Elfur Logadóttir, 16.10.2007 kl. 21:50
humm og ef spá Gísla gengi eftir hvað væri orkuveitan þá búin að græða?. Nei úbbs hann ætlaði að selja hlutinn.
Jón P Þorsteinsson (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 01:15
Flott Elfur, ætlaði einmitt að fara að blogga um nákvæmlega þetta.
Fáránlegur málflutningur Gísla Marteins undanfarna daga sem hefur verið honum og félögum hans til verulegrar minnkunar.
Ég kaus hann og "dvergana sex" síðast en mun aldrei nokkurn tímann gera það aftur. Gísli mun geta tekið alla þá stærðfræðiáfanga sem honum listir eftir þetta kjörtímabil fái ég einhverju um það ráðið.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 17.10.2007 kl. 03:43
Mér hefur fundist þessi málflutningur um skítalykt af REI-GGE málinu vegna flokksskírteina í Framsóknarflokknum alveg einstaklega ótrúverðugur einmitt á þeim forsendum sem þú leggur upp með. Flokksskírteinin í Sjálfstæðisflokknum eru auðvitað ekki síður fyrir hendi í málinu. Spurning hvaða ráða verður gripið til næst til að breiða yfir eigið klúður. Hanna Birna, Villi, Gísli, Þorbjörg, Jórunn, Júlíus Vífill og Kjartan ættu að frekar að fara að drífa sig í heimalærdóminn heldur en að halda úti svona málatilbúnaði.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 09:26
Hmmm, það sem Skúli skrifar kallar á einhverjar útskýringar.
Sameining OR og REI hefur aldrei verið í spilunum. "Gamla" REI (fyrir sameiningu við GGE) er dótturfélag OR og yfir í það félag var á tveimur mismunandi tímum flutt verðmæti sem áður voru í eigu OR (og eru það áfram í gegnum eignarhald OR á "gamla" REI):
1. Við stofnun REI voru eignarhlutir OR í ENEX, Metan, VistOrku og öðrum félögum fluttir yfir í dótturfélagið (sjá nánar: http://www.reykjavikenergy.com/Assets/).
2. Vegna yfirvofandi sameiningar var eignarhlutur HS fluttur yfir í REI.
Með þetta á borðinu, þá verð ég að spyrja Skúla hvað hann eigi við með kapphlaupi um að sameina REI og OR? og að þá fyrst að því loknu hafi GGE komið að málinu - hvernig þá? Hverju breytti þessi "sameining" sem þú kallar svo fyrir tengsl "framsóknarmafíunnar við REI" eins og þú orðar það?
Ég held að það sjái það allir að upphlaup sjálfstæðismanna núna tengist því að þeir töpuðu orustunni - en það er ekki þar með sagt að það sé ekki sannleikskorn í því sem þeir segja - hjákátlegheitin koma bara vegna þess að fullyrðingarnar hitta þá sjálfa fyrir.
Fyrir samruna REI og GGE er REI í eigu tveggja (þriggja?) aðila: 1) OR sem hafði lagt fram beinharða peninga og eignir sem stofnframlag og 2) Bjarna Ármannssonar sem lagði fram beinharða peninga og fékk í staðin hlutafé sem aflað var með hlutafjáraukningu[1]. (Þriðji aðilinn væri þá Jón Diðrik).
Fyrir samruna REI og GGE er GGE í eigu nokkurra aðila. Þar á meðal eru margumrædd fyrirtæki í eigu manna sem nátengdir eru framsóknarflokknum (samtals eru með 1,115% eins og sést í upphaflegu færslunni) en þar á meðal eru líka fyrirtæki í eigu manna sem nátengdir eru sjálfstæðisflokknum (sem eru með fjórum til fimm sinnum hærri eignarhlut en framsóknarmennirnir eins og sést í upphaflegu færslunni og leiðréttingu Marinós í athugasemd 2).
Það er því alls ekki rétt að ég kannist ekki við meinta framsóknarmafíu, ég beinlínis minnist á þá í upphaflegu færslunni - með mun varkárara orðfari. Það sem hins vegar vantar í upphlaup sjálfstæðismanna núna og ákall Skúla um meinta framsóknarmafíu, er sjónarmið margra að það hafi ekkert hallað á og flokkarnir tveir, framsókn og sjálfstæðisflokkurinn, hafi virt þöglar helmingaskiptareglur við úthlutun ríkiseigna til flokksgæðinga. Ég er til dæmis gapandi gáttuð á ráðningu Rúnars Haukssonar kosningastjóra framsóknar til REI og tilkall hans til mögulegs kaupréttar í félaginu var siðlaust, en í skjóli fullkominna helmingaskipta þá var Vilhjálmur Skúlason nýorðinn viðskiptalögfræðingur á lista yfir helstu sérfræðinga Orkuveitunnar sem starfað höfðu að útrásinni og voru því taldir eiga aukinn kauprétt í nýja félaginu - á helmingi betra gengi en framsóknargæðingurinn. Vilhjálmur þessi er systursonur Vilhjálms þv. borgarstjóra.
Að öðru leyti tek ég undir með Skúla að REI málið allt eigi að skoða ofaní kjölinn og tryggja að engum verði afhentir fjármunir í eigu almennings án þess að réttmæt greiðsla komi fyrir. Þar á engum að hlífa, hvorki meðlimum núverandi né fyrrverandi meirihluta, komist upp um óheilindi þeirra í málinu.
[1] þannig telur Bjarni sig komast löglega fram hjá spurningu umboðsmanns alþingis um samþykkt eigendafundar á sölu hlutabréfa til Bjarna - hvort það sé rétt læt ég aðra um að svara.
Elfur Logadóttir, 17.10.2007 kl. 14:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.