Má núna hlusta á Grím Björnsson?

Þegar ég las þessa frétt í morgun rifjaðist upp fyrir mér að Grímur Björnsson jarðfræðingur minntist á skjálftavirkni í hinni frægu greinargerð sinni sem flaug of lágt of lengi. Rifjum upp hvað Grímur sagði:

Strax um vorið 2001 sýndist mér að lítið færi fyrir jarðtæknilegum athugunum á þeim áhrifum sem verða af jafn þungu fargi og lónið sjálft er.

[...]

Sökum þess hve undirrituðum finnst þetta verkefni illa undirbúið og alls ekki tækt til ákvarðanatöku, er þessi greinargerð sett saman og afhent Orkumálastjóra til kynningar og aðgerða.

[...]

Flotjafnvægi og landsig

Eitt af helstu einkennunum í íslenskri landmótun er landsig/ris sem stafar af breytilegu jökulfargi. Fjaðrandi hluti jarðskorpunnar sígur þannig niður í mjukan mötulinn ef á er þrýst, og hækkar á ný þegar farginu sleppir. Ekki er minnst einu orði á flotjafnvægi í matsskýrslu Kárahnjúkavirkjunar.  Nú er stærð Hálslóns a.m.k. sambærileg við þykkt fjaðrandi jarðskorpunnar undir lóninu. Því segir þumalfingursregla um flotjafnvægi lands að lónið mun valda verulegu landsigi næst sér (telst líklega í metrum) en smávægilegri landhækkun fjær. Jafnframt veldur það massatilfærslum í hlutbráðarlaginu, undir stinnu skorpunni. Matsskýrslan lætur hvorki uppi skorpuþykkt, dýpi á hlutbráð né seigju hennar. Ómögulegt er að átta sig á áhrifum lónfargsins ef þessar stærðir eru ekki tilgreindar.

[...]

Áhrif á eldvirkni

Hin árlega 60-75 m sveifla í vatnsborði Hálslóns léttir tæplega áraun á bergið við Kárahnjúkastíflu. Fargsveiflan getur jafnframt strokkað til kvikuna í hlutbráðnu lagi eystra gosbeltisins, sé fjaðrandi hluti jarðskorpunnar þunnur, og þess vegna gert einhverri megineldstöðinni bumbult. Slík fargtengd ógleði er t.d. árviss í Mýrdalsjökli á haustin og alþekkt er að Grímsvötn gjósa oft í kjölfar stórra jökulhlaupa, en þau hlaup eru í þunga sambærileg við massa Hálslóns. Í versta falli má giska á að eldstöðin í Snæfelli vakni til lífsins við þetta hoss og skjóti þar með kvikuinnskotum til norðurs, þvert á fyrirhugaða jarðgangaleið. Og stífli göngin. Eða þá að eldstöðvakerfið sem skóp Kárahnúka lifni við í sprungugosi. Undirritaður fellst því alls ekki á þá niðurstöðu matsskýrslunnar að lónið hafi engin áhrif á eldvirkni, þvert á móti teljast líkurnar talsverðar á að eldvirkni vaxi við lónið. Má í þessu samhengi minna á að Hekla hefur aldrei verið sprækari á sögulegum tíma en um og eftir árið 1970, einmitt þegar Þórisvatnsmiðlun tekur til starfa. (leturbr. mín)

Þá er þegar orðið ljóst að hann sá fyrir kvikuhreyfingar og eldvirkni auk þess sem áður hefur verið  greint frá því að hann sá réttilega fyrir vanmat á leka grunnvatns í aðrennslisgöngin. (Man einhver eftir fréttinni um það að hönnuðir Kárahnjúkastíflu söfnuðu grunnvatni sem lekið hafði í göngin og prufuðu rennsli þeirra með því - þrátt fyrir að umhverfisráðherra hafi gert kröfur um að leki yrði þéttur jafnóðum).

Er nema von að maður spyrji: Hvenær verður hlustað á sérfræðingana okkar. 


mbl.is Jarðskjálftar við Upptyppinga benda til kvikuhreyfinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband